133. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:50]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er náttúrlega gaman að gefa gjafir fyrir jólin, það er siður, og það er greinilegt að þingmenn eru komnir í mikið jólaskap. Menn mikla sig mjög af örlæti sínu og gjöfum til fólks í landinu eins og það komi frá þeim sjálfum og vilja jafnvel sumir gera betur, lækka skatta enn meira. Það er ánægjulegt að hér er verið að lækka skatta á matvælum og brýnum lífsnauðsynjum fjölskyldna í landinu en það er mikil einföldun að stilla dæminu þannig upp að allar skattbreytingar þessarar ríkisstjórnar hafi verið til lækkunar. Staðreyndin er auðvitað sú að skattar hafa líka flust til, skattbyrðinni er dreift öðruvísi í landinu í dag en áður var. Skattar hafa þyngst á launatekjum (Gripið fram í.) en lækkað á fjármagnstekjum og háum tekjum, eignatekjum, og færst af háum launum yfir á lág laun. Þetta eru staðreyndir, hv. þingmaður.

Það er stundum sagt að ríkissjóður eigi fáa vini. Hann hefur átt óvenjufáa vini undanfarna daga. Menn hafa keppst við að koma upp og láta eins og það sé algerlega útlátalaust og muni hvergi koma við að lækka tekjugrunn samneyslunnar í landinu um hátt í 40 milljarða kr. og hafa áhuga á því að bæta um betur á næstu árum, ef heyra má, og ætla sér mikil afrek í vegaframkvæmdum og hvað það nú er á næstu árum.

Ég verð að segja alveg eins og er, frú forseti, og það er kannski ekki vinsælt að spilla gleðinni hérna, en ég er nokkuð hugsi yfir því að það skuli varla nokkur einasti maður og alls ekki hæstv. fjármálaráðherra velta því augnablik fyrir sér hvort við séum kannski farin að vera dálítið góð við okkur sjálf núna í lokin á þessari miklu þenslu, góðærisblöðru, sem hefur þanið út hagkerfið undanfarin ár fyrst og fremst á grundvelli mikils viðskiptahalla og tekna ríkissjóðs af því. Það er nefnilega svo að stundum koma mögur ár á eftir góðum árum og það gæti farið svo að það yrði ekki eins gaman að vera fjármálaráðherra í mikilli niðursveiflu ef svo illa skyldi fara að hún kæmi að tveim þrem árum liðnum. Hvar verða skattalækkunarhetjurnar þá? Ég vil a.m.k. eiga þau orð á prenti, virðulegi forseti, og í þingtíðindunum að einhverjir menn hafi verið að velta þessu fyrir sér rétt fyrir jólin.