133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:02]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það greiðir alltaf fyrir umræðu ef menn hafa haft tök á að afla sér þekkingar á því sem verið er að ræða um. Það kom hér fram í umræðum áðan að hæstv. menntamálaráðherra virtist ekki vita hvað stóð í þeim bréfum sem ráðuneyti hennar leyndi fyrir nefndarmönnum. Hún hélt því t.d. fram statt og stöðugt áðan að bréfaskiptin vörðuðu ekkert rekstrarformið. Ég vil leyfa mér að segja, eftir að hafa brutt og ruðst í gegnum þessi gögn á allt of skömmum tíma að það sé rangt hjá hæstv. ráðherra.

Ég dreg því þá ályktun, frú forseti, að það væri viturlegt fyrir þessa umræðu að gefa hæstv. menntamálaráðherra svolítið næði til að lesa í gegnum þessi gögn sem skipta töluvert miklu máli.

Frú forseti. Ég kem hér upp til að ræða fundarstjórn forseta vegna þess að við formenn þingflokka óskuðum eftir því á sínum tíma að fá betra tóm til þess að kynna okkur umrædd gögn. Við vorum ekki að biðja um að umræðunni yrði frestað. Það hefði t.d. verið hægt að hafa fund í morgun eða á laugardag.

Nú gerist það að varaformaður menntamálanefndar, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, kemur hingað upp og heldur dúndurræðu sem fjallar einungis um að það hafi orðið til þess að torvelda störf nefndarinnar og torvelda gang málsins að hæstv. menntamálaráðherra og starfsmenn hennar komu ekki fram með þessi gögn.

Skiptir það engu máli, frú forseti? Ég ætla ekki að áfellast hæstv. forseta fyrir að hafa tekið að mínu mati rangt á þessu máli, þessari bón okkar. Hún var stödd erlendis og hugsanlega erfitt fyrir hana að meta stöðuna í gegnum fjölmiðla.

En það liggur samt sem áður fyrir að þó að hv. formaður nefndarinnar þori nú ekki að standa við stóru orðin sem hann hafði í Fréttablaðinu þegar hann sagði í fyrsta lagi að þetta væri ótækt og óásættanlegt og sagði svo borginmannlegur, eins og stór og mikill kall, að hann ætlaði sko að fara og ræða þetta mál frekar við ráðherrana. Við erum búin að sjá hvernig þær viðræður voru. Hann kemur eins og kaghýddur maður til baka og getur ekki staðið við það sem hann sagði.

En efni málsins er það að bæði formaðurinn og varaformaðurinn hér í þinginu hafa bókstaflega sagt opinberlega að vinnubrögð hæstv. ráðherra hafi orðið til að torvelda framgang málsins. Mér finnst að hæstv. menntamálaráðherra verði til þess að greiða fyrir þingstörfum að gera það uppskátt af hverju hún leysti ekki þessi gögn til nefndarinnar. Hún segir: Við komum með þau um leið og beðið var um þau.

Herra trúr. Hvernig átti stjórnarandstaðan eða varaformaður menntamálanefndar að vita af gögnunum þegar þeim var haldið leyndum? Það var ekki fyrr en að fjölmiðill komst á snoðir um bréfið að hann óskaði eftir þeim og var hafnað af fá nema tvö af sjö bréfum.

Samstundis þann dag, 5. janúar var farið fram á að fá bréfin. Viku seinna komu þau. Svo kemur hæstv. ráðherra og segir: Auðvitað hefðuð þið getað fengið gögnin. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég á samkvæmt mælingu 3 mínútur og 22 sekúndur eftir.

(Forseti (SP): Hv. þingmaður veit það jafn vel og forseti að hann hefur 3 mínútur til umráða í þessari umræðu um fundarstjórn forseta. Þótt klukkan hafi eitthvað bilað að þessu sinni.)

Mér er það ljóst, frú forseti. En ég treysti hæstv. forseta til þess að mæla tíma minn. Getum við gert samkomulag um að ég fái 2 mínútur til viðbótar?

(Forseti (SP): Forseti þykist vera nokkuð viss um að hv. þingmaður muni koma aftur í pontu.)