133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:33]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég var að benda hér á, eins og þingheimur veit, að umræða af þessu tagi gengur út á það að menn bera fram rök og mótrök. Ég var að benda á það, frú forseti, að ég hefði komið hér með spurningu sem spratt af því að mál sem hefur verið mest í umræðum síðustu dægur og vikur, sem varðar það þingmál sem hér er undir, var ekki reifað í framsögunni. Það verður að sjálfsögðu, frú forseti, til að tefja þessa umræðu, gera hana lengri vegna þess að við þurfum að fá þessi svör frá hv. þingmanni.

Af þessum orsökum notfærði ég mér minn þinglega rétt til að koma hér fram með eina tiltekna spurningu sem ég spurði sjálfur þennan formann í nefndinni þegar þeir Páll Gunnar Pálsson og Guðmundur Sigurðsson komu til fundar við nefndina. Ég fékk ekki svör þá. Þá vísaði hv. þingmaður til þess sem hann kallaði fordæmi af búvörulögunum.

Ef ég fæ ekki svör í nefndinni, frú forseti, spyr ég úr ræðustóli. Sá maður sem spurningu minni er varpað til er sá sem ber ábyrgð á för málsins hér í gegnum þessa umræðu. Það kemur í ljós að hann annaðhvort vill ekki svara mér eða treystir sér ekki til þess af því að hann hefur ekki rök eða einfaldlega veit ekki um málið.

Það er rangt hjá hv. þingmanni að ég hafi haldið því fram að málið hafi ekki verið rætt í nefndinni. En það er alveg ljóst að hann og hæstv. ráðherra hafa annaðhvort ekki hundsvit á þessum lögfræðilega þætti málsins eða þau hafa svo vondan málstað, eins og kemur fram í grein fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, að þau vilja ekki ræða hann. Þar er það borið á hæstv. ráðherra, frú forseti, að hann hafi annaðhvort fengið óheiðarlega ráðgjöf frá sínu fólki í ráðuneytinu eða hann sé vísvitandi að skjóta sér undan umræðunni.

Þetta er hins vegar lykilatriði í þessu máli og við þurfum að fá umræðu um það hér. Ég spyr frú forseta hvernig í ósköpunum við eigum að geta fengið svarið ef hv. formaður menntamálanefndar leggur á flótta eins og hræddur sveinstauli í hvert skipti sem þetta mál er tekið upp. Hann kom hér áðan, og hvað gerði hann? Hann reifaði það hverjir hefðu komið til fundar við nefndina og hversu oft það hefði verið rætt en hann gat ekki um niðurstöðu.

Hefði verið einhver rökræn niðurstaða hefði hana átt að vera að finna í nefndarálitinu. En hana er ekki að finna þar. Það er þess vegna, frú forseti, sem ég kem hér upp til að benda á þá augljósu staðreynd að fyrst við getum ekki dregið einu sinni með glóandi töngum út úr hv. formanni menntamálanefndar svar við þessu verður það ekki til að greiða för þessa máls í gegnum þingið.

Auðvitað er það svo að ekki hætti ég fyrr en hv. þingmaður er búinn að gefa svör við þessu eða upplýsa um fáfræði sína um málið. Ekki væni ég hann um óheiðarleika. Ég þekki hann að því að vera ærlegur og góður þingmaður. (Forseti hringir.)