133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:16]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum fundarstjórn forseta og á undan mér hafa þó nokkrir þingmenn farið fram á það að virðulegur forseti upplýsi þingheim um það hvernig þinghaldinu verði hagað í dag og kvöld og jafnvel nótt. Engin svör hafa borist frá hæstv. forseta og það þykir mér miður. Ég átti satt að segja von á því að við fengjum einhverja línu, einhver svör um það hvernig til standi að haga þinginu í dag. Ég leyfi mér að benda á það, frú forseti, að við vorum hérna til miðnættis í gær og í morgun byrjuðu síðan nefndarfundir snemma, t.d. í samgöngunefnd kl. 8.30 og stjórnarskrárnefnd kl. 9. Við vitum öll að nefndarfundir í dag verða í skötulíki. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom einmitt inn á það að félagsmálanefnd á að hittast á einhverjum skyndifundi í hádeginu í dag. Það er greinilegt að dagskrá þingsins er að riðlast að verulegu leyti. Það virðist ekkert vera augljóst hvort fyrirspurnir til ráðherra sem eru venjulega á miðvikudögum verða á dagskrá á morgun eins og mér skilst að sé hefð á miðvikudögum. Utandagskrárumræður eru settar á ís þó að þær bíði margar. Mér skilst að það sé ekki á dagskrá að hafa neinar utandagskrárumræður alla þessa viku. Er það svo, frú forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn ráðskist með dagskrá þingsins? Eru þetta einhverjar ordrur frá hæstv. menntamálaráðherra eða jafnvel hæstv. forsætisráðherra? Mér er spurn.

Ég mundi gjarnan vilja fá svör við þessum spurningum, frú forseti, og ég vona auðvitað að þau verði þannig að málin skýrist eitthvað, að við fáum ekki loðin svör eins og oft eru gefin, að við ætlum að halda áfram eitthvað inn í kvöldið eða það eigi ekki að ræna menn nætursvefninum eða ekki að verulegu leyti eins og talað var um í gær. Það fór allt vel í gær og, frú forseti, það er ekki vegna þess að ég nenni ekki að vinna eða eitthvað svoleiðis eins og stundum hefur verið haldið fram. Hv. formaður menntamálanefndar hélt fram á síðasta þingi að þetta væri jafnvel vegna þess að menn nenntu ekki að vinna eða eitthvað í þá veruna. Það er ekki þess vegna, frú forseti. Ég vil bara fá að vita hversu lengi og hversu mikið á að vinna vegna þess að maður hefur aðra hluti sem maður vill skipuleggja líka.