133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

þinghaldið næstu daga.

[11:34]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við erum að ræða undir liðnum fundarstjórn forseta um það samkomulag sem gert var um störf þingsins og virðulegur forseti átti aðild að. Það eru greinilega eitthvað skiptar skoðanir um hvað þetta samkomulag fól í sér. Mér sýnast vera algjörlega tveir pólar í því. Það eru hv. þingmenn eins og Ögmundur Jónasson sem var beinn þátttakandi í þessu samkomulagi, maður sem ég treysti, og ég hef enga ástæðu til að efast um orð hans. Það var samkomulag um að þetta yrði fyrsta mál á dagskrá og að auk þess mundu þingmenn mæta einum degi fyrr úr jólafríi sem er auðvitað ekkert jólafrí. Menn voru auðvitað á þeytingi, m.a. sat fólk í menntamálanefnd á stífum fundum milli jóla og nýárs og strax í byrjun janúar og aðrir þingmenn voru í sínum kjördæmum að hitta kjósendur á mikilvægum fundum hér og þar en féllust góðfúslega á að mæta einum degi fyrr, strax á mánudegi, og byrja auk þess daginn snemma á þingfundi, nefndarfundum auðvitað strax og þingfundi óvenjusnemma á mánudegi. Eins og hv. þm. Mörður Árnason kom inn á líka voru ekki neinar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á þessum mánudegi heldur var talað mjög mikið og ítarlega og lengi og vel um þetta frumvarp um Ríkisútvarpið ohf.

Ég vil einnig ítreka ósk mína, frú forseti, um að þingheimur verði upplýstur um það hvernig dagskráin á að vera í dag. Er meiningin að halda hér kvöldfund? Ég væri líka alveg til í að fá skýringu á því hvað orðið „kvöldfundur“ felur í sér. Nær kvöldfundur fram yfir miðnætti? Það var annar hæstv. forseti sem hélt því fram að skilgreiningin næturfundur væri ekki til, það væri bara kvöldfundur og kvöldfundur gæti staðið til kl. 6 næsta morgun þess vegna. Það þykir mér afar merkilegur skilningur. Þetta mál er þess eðlis að það er hægt að fresta umræðu um það og sérstaklega þegar fram koma (Forseti hringir.) nýjar upplýsingar eins og gerðist í þessu máli.