133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:24]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að hv. formaður menntamálanefndar útskýri svolítið betur fyrir okkur, og virðulegur forseti gefi honum tóm til þess, hvað hann á við með fráleitum ásökunum sínum um að hér standi yfir málþóf. Og hann þarf að skýra hvar mörkin liggi á milli málþófs og eðlilegrar og ítarlegrar umræðu og umfjöllunar um tiltekin mál.

Í hvert sinn sem mál er rætt hér lengur en í nokkrar klukkustundir, mál sem er erfitt fyrir ríkisstjórnina, mál sem ríkisstjórnin hrekst undan með, er í vörn fyrir og er að tapa úti í samfélaginu, er farið að hrópa um málþóf til að koma einhverjum annarlegum blæ á umfjöllun stjórnarandstöðunnar um málið í þinginu. Það er ekki nema eðlilegt að um jafnstórt mál og Ríkisútvarpið fari fram ítarleg umræða í þinginu, sérstaklega þegar uppi eru jafnmiklar deilur um málið og skoðanir jafnskiptar og á við um þetta mál. Þess vegna held ég að virðulegur forseti hljóti að velta fyrir sér hvað réttlæti það að hér séu þingsköp tekin úr sambandi til þess eins að reyna að ryðja málinu fyrr og hraðar í gegnum þingið. Það er ekkert sem réttlætir það að mínu mati, að sjálfsögðu ekki.

Nú er miður janúar. Það eru tæpir 30 starfsdagar eftir af þinginu. Ríkisstjórnin getur að sjálfsögðu endurskoðað hug sinn og tekið því sáttaboði sem sett var fram í menntamálanefnd á dögunum þar sem stjórnarandstaðan bauð upp á það að þessu máli yrði frestað, það tekið út af dagskrá og samstöðu náð um þær brýnustu breytingar sem þarf að gera í málefnum Ríkisútvarpsins er lúta að stjórnkerfismálum þar innan húss o.s.frv. en síðan yrði málið tekið til umfjöllunar á ný eftir kosningarnar í vor þann 12. maí og þá mundum við leiða til lykta hvert rekstrarformið yrði, hvort farin yrði leið landsfundar Framsóknarflokksins frá 2003 um sjálfseignarstofnun sem er einnig stefna Samfylkingarinnar eða einhver önnur.

Að minnsta kosti verður nýrri ríkisstjórn að gefast kostur á að leiða þetta mikla deilumál til lykta, eitt stærsta deilumálið í þinginu frá því að fjölmiðlalögin voru til umfjöllunar fyrir þremur árum, sællar minningar, og þess vegna hlýtur virðulegur forseti að íhuga hvort ekki eigi að gera hlé á þessu máli, setja þingsköpin aftur í samband, taka á dagskrá fyrirspurnir og skoða sáttaboð stjórnarandstöðunnar í ríkisútvarpsmálunum. Það er að sjálfsögðu hin eina rétta leið og þess vegna hlýtur hv. formaður menntamálanefndar að skýra fráleitar ásakanir sínar um málþóf og þá hvar mörkin liggja milli málþófs og eðlilegrar, vandaðrar og ítarlegrar umræðu. Það er stórt og viðamikið mál sem og frumvarpið um Ríkisútvarpið, svo sannarlega. Óneitanlega er þetta flókið mál og fjallað um það út frá mörgum hliðum og þótt það sé rætt hér í 2–3 daga eiga stjórnarliðar ekki að kveinka sér undan því að hér séu (Forseti hringir.) málin rædd með eðlilegum hætti.