133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hlýddum við á nokkuð merkilega ræðu, málefnalega og ærlega hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem eins og allir vita er þingmaður Framsóknarflokksins. Ræða hv. þingmanns opinberaði auðvitað þann ágreining sem er til staðar hjá stjórnarliðum um málið. Það er ekki eining innan stjórnarliðsins um meginatriði málsins. Það er undirstrikað í ræðu hv. þingmanns en er svo sem eitthvað sem við höfum vitað og höfum fundið á almennum kjósendum Framsóknarflokksins og almennum félögum í Framsóknarflokknum. Ég þakka því hv. þingmanni fyrir að hafa undirstrikað eða staðfest það sem haldið hefur verið fram í þessum efnum.

Hv. þingmaður vitnar til samþykkta flokksþinga Framsóknarflokksins. Hann bendir okkur á að það sé ekki í stjórnarsáttmála flokkanna að hlutafélagavæða eigi Ríkisútvarpið vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafi sett sig upp á móti þeirri breytingu. Hann segir að þingflokkurinn hafi skipt um stefnu í málinu án þess að hafa haft stuðning við þá stefnubreytingu í baklandi flokksins eða hafa borið hana undir stofnanir hans, almenna flokksmenn eða flokksþing. Mér finnst þessar skýringar hv. þingmanns vera afar athyglisverðar og vil spyrja: Hvert er mat þingmannsins á ástæðum þess að þetta gerðist? Hvað fékk meiri hluta þingflokks Framsóknarflokksins til að skipta um skoðun um þetta grundvallaratriði málsins að heimila (Forseti hringir.) hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins?