133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:54]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt þá fannst mér eins og lok andsvars síns þá væri hann að hverfa hugsanlega frá sjálfseignarstofnunarfyrirkomulaginu. En kannski hef ég bara misskilið hv. þingmann.

Hann sagði að þetta hefði ekki verið merkileg ræða og að ekkert nýtt hefði komið fram. Þá háir mér það fyrirbæri sem nákvæmlega er að herja á alla stjórnarandstöðuna: Það er ekkert nýtt að koma fram. Ég taldi mig fara mjög gaumgæfilega yfir ákveðna þætti málsins, lífeyrisréttindin, um einmitt af hverju hlutafélag en ekki sjálfseignarstofnun er valið. Ég er margbúin að segja það að hlutafélagaformið — og það er eitthvað sem hv. þingmaður þolir ekki að heyra — hlutafélagaformið er þekkt form. Það er eitthvað sem við Íslendingar þekkjum, kunnum á og vitum um. Það er gegnsætt. Það er formbundið. Við vitum nákvæmlega hvaða löggjöf gildir um það.

Ef við ætlum að fara í sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið þá hefðum við þurft að gera hvað? Af því lagaramminn um sjálfseignarstofnun er óljós, (Forseti hringir.) þá hefðum við þurft að niðurnjörva lið fyrir lið allt í lögum (Forseti hringir.) sem gerir Ríkisútvarpið ósveigjanlegt.