133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þá ræðu sem hann hélt, sem er seinni ræða hans í umræðunni sem þýðir að hann hefur að sínu leyti lokið leik hér í langri og strangri umræðu. Ég get ekki sagt annað en að það sé nokkur eftirsjá að hv. þingmanni úr umræðunni. Ég verð þó að segja það að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með ræðuna vegna þess að fátt nýtt kom þar fram. Þarna voru á ferðinni gamlar lummur sem áður hafa (Gripið fram í: Nei.) komið fram. (Gripið fram í: Hvað segir þú?)

Það sem mér fannst skorta dálítið á í ræðunni var að hv. þingmaður gerði skýra grein fyrir stefnu Samfylkingarinnar í málinu en eins og hv. þingmaður man kannski þá hélt ég merka ræðu í gær þar sem ég fór yfir stefnur Samfylkingarinnar, þ.e. annars vegar þá sem mælir fyrir um það að gera eigi Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun og hins vegar þá skoðun varaformanns (Gripið fram í.) Samfylkingarinnar sem hv. þingmaður hefur lýst yfir að sé í raun handónýtur og einskis nýtur í stjórnkerfi Samfylkingarinnar. En eins og ég sagði, frú forseti, þá rifjaði ég upp ummæli sem eftir varaformanninum, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, voru höfð þann 10. nóvember sl. í Fréttablaðinu. Þar er þingmaðurinn spurður: Á að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag?

Þingmaðurinn svarar, með leyfi forseta:

„Já, ef ritstjórnarlegt sjálfstæði helst óskert og aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum verði fyrir hendi.“

Svo einbeittur var hv. þingmaður í stuðningi sínum við málið að hann ítrekaði stuðning sinn við það í Morgunblaðinu í gær. Ég spyr hv. þm. Einar Má Sigurðarson: (Forseti hringir.) Er hann sammála varaformanni sínum hvað varðar viðhorf hans til hlutafélagavæðingar Ríkisútvarpsins?