133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:35]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið hefur stjórnarandstaðan lagt fram sáttaboð í þeirri deilu sem ríkir um Ríkisútvarpið. Það felst í því að menn fallist á að gildistöku laganna verði skotið fram yfir kosningar, að í staðinn fyrir að verða 1. apríl verði hún 1. júlí. Bak við þetta liggur það grundvallarviðhorf að við erum að fara í kosningar og þess vegna er alveg ljóst að það verða kjósendur sem gætu þá kveðið upp sinn dóm. Ef sú ríkisstjórn sem nú situr heldur áfram mundu lögin ganga sinn gang og koma til framkvæmda en ef um breytingu verður að ræða og ríkisstjórninni verður hrundið mundi ný ríkisstjórn væntanlega rekja þau lög upp. Þetta höfum við sagt alveg opið og þessu hefur verið komið á framfæri í sáttaskyni við ríkisstjórnina. Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og formann Framsóknarflokksins, sem hér er staddur, hvort það sé rétt að Framsóknarflokkurinn leggist gegn þessu, hvort það sé rétt að Framsóknarflokkurinn sérstaklega sé hér þrándur í götu og vilji ekki taka undir þetta sáttaboð. Það hefur komið fram að þeir sem hafa barist hvað harðast fyrir þessu máli og reynt að koma því í gegn eru þingmenn Framsóknarflokksins. Mig langar að fá það fram hjá formanni Framsóknarflokksins hvort hann telji að þessi sáttaleið sé gerleg að hans mati.