133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:04]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Valdimar Friðriksson undrast að ég skuli hafa færst til á mælendaskrá. En svo háttar nú til með okkur landsbyggðarþingmennina að við erum um þessar mundir, samhliða því að standa vaktina í þinginu, (Gripið fram í.) að þjónusta okkar kjördæmi og sækja þá fundi sem boðaðir hafa verið fyrir löngu. (Gripið fram í.) Þannig hefur verið í þeim tilfellum þegar ég hef þurft að færa mig til á mælendaskrá að þá hef ég verið á fundum í kjördæminu.

Ég fékk spurningu frá hv. þingmanni um starfsmennina, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hvort tekið hafi verið tekið til þess. Nú er það þannig, virðulegi forseti, að á hinu háa Alþingi höfum við breytt nokkrum stofnunum í hlutafélög. (Gripið fram í.) Nefna má Rarik til að mynda og Flugstoðir. Ég tel að það eigi að vera augljóst þegar við breytum úr þessu rekstrarformi að það sé bara eðlilegt, þ.e. að réttindi og skyldur starfsmanna mega ekki vera hamlandi þáttur í að menn geti breytt stofnunum í annað rekstrarform. (Gripið fram í.) Það hefur margoft komið fram um lífeyrissjóðsréttindi að menn geta flutt sig á milli og haldið áfram í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ég held að vel sé fyrir þessum málum séð. Það er bara eðli vinnumarkaðarins á Íslandi að hann er að taka breytingum. Það sama gerist í hinum eðlilega og einkarekna fyrirtækjarekstri að það er þróun og (Forseti hringir.) mér finnst ekki óeðlilegt að sú þróun taki tillit (Forseti hringir.) til þessara hluta.