133. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2007.

upplýsingar um fjárhagsstöðu RÚV.

[10:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt að hnykkja á því sem hefur verið margsagt hér í þessum ræðustól og við umræðuna í síðustu viku. Það er ekki um að ræða einkavæðingu Ríkisútvarpsins, þannig að menn hafi það á hreinu.

Ég bendi stjórnarandstöðunni enn og aftur á það að fara að gera upp hug sinn hvort hún telji um einkavæðingu eða ríkisvæðingu að ræða. Hún getur ekki gert sjálf upp sinn hug. Það er alveg ljóst að við erum að fara hér í formbreytingu á ríkisstofnun sem mun stuðla að því að Ríkisútvarpið verður öflugra en áður til að sinna menningarhlutverki sínu, efla innlenda dagskrárgerð, efla textun o.s.frv. Til þess er leikurinn gerður að við fáum ríkisútvarp sem sinnir þessum menningarlegu skyldum, þessari almannaþjónustu sem við gerum kröfur um að verði sinnt.

Það er rétt að hv. þingmaður lagði fram fyrirspurn einum eða tveimur dögum áður en þingi lauk fyrir jól og bað um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins 1. desember. Það er unnið að þessu svari eins og hv. þingmanni er fullkunnugt um og við höfum sjálfar rætt okkar á milli. Ég mun gera allt til þess að þetta svar komi fram í dag eða á morgun. Menn eru að vinna að þessu og það er engu að leyna.

Það er rétt að ítreka það sem hefur verið sagt varðandi fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins, við fjármálaráðherra höfum bæði lýst því yfir að Ríkisútvarpinu verði skilað inn í hlutafélagaformið með 15% eiginfjárhlutfalli. Það verður til þess að það muni standa vel undir þeim skuldbindingum sem við ætlumst til að það standi undir.