133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:11]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisverð tillaga sem kom hér fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Ég hef satt að segja ekki heyrt þessa tillögu fyrr. En má kannski búast við að henni verði fylgt eftir af hv. þingmanni? Má búast við því? Hvað er verið að reyna að gefa hér í skyn? Við erum að bera fram frumvarp um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem allir eru sammála um að er gott mál og þá koma einhverjar svona dylgjur inn í umræðuna, dylgjur sem mér finnst engan veginn eiga heima í þessari umræðu.

Og varðandi það að við hv. þm. Halldór Blöndal séum að sarga sundur æðar til opinberra stofnana með málflutningi okkar, þá er svo langur vegur frá því. En hv. þm. Halldór Blöndal nefndi það áðan að gengið hefði mjög illa að fá ríkisstofnanir til að vinna saman að því að ná endanlegri niðurstöðu um tillögur að Dettifossvegi. Það hefur dregist von úr viti. Hvernig er það, er þingmönnum ekki heimilt að benda á það ef eitthvað slíkt gengur illa hjá opinberum stofnunum?

Ég tel það mjög til vansa að þessar opinberu stofnanir hafi ekki getað komist að samkomulagi og niðurstöðu um það hvernig Dettifossvegur eigi að liggja. Mér finnst sjálfsagt að nefna það hér, því að þetta er satt að segja að farið að fara býsna mikið í taugarnar á heimamönnum í Norðausturkjördæmi, ferðaþjónustuaðilum sem byggja afkomu sína á því að geta (Forseti hringir.) komið ferðamönnum að Dettifossi til að sýna þessa mestu náttúruperlu okkar. (Forseti hringir.) Getum við ekki farið fram á það við opinberar stofnanir að þær reyni að klára vinnuna sína?