133. löggjafarþing — 58. fundur,  23. jan. 2007.

Vatnajökulsþjóðgarður.

395. mál
[18:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér er það alveg ljóst og ég get vel sætt mig við að veruleikinn sé sá að taka verði stofnun þessa þjóðgarðs í einhverjum áföngum. En það vantar að mínu mati inn í þessa upptalningu sem einmitt er mikilvæg vegna þess að hún hefur visst forspárgildi um það sem menn eru að hugsa um í framtíðinni og ætla sér að ná í fyllingu tímans inn í þjóðgarðinn. Það sem vantar er fyrst og fremst tvennt en það er ekkert smáræði, það vantar Skjálfandafljót og Langasjó og þau svæði sem með því færast réttum megin markanna. Þá væri ég orðinn fyllilega sáttur og ég áskil mér rétt til að berjast fyrir því af alefli það þetta verði haft í sigti. Það skiptir líka máli vegna þess að sé það komið inn í opinbera stefnumótun og hafi það fengið blessun á Alþingi að þetta sé framtíðarsýn manna þá mundum við að sjálfsögðu ætlast til þess að í framtíðinni tækju stjórnvöld mið af því, gæfu ekki út rannsóknarleyfi til virkjana í viðkomandi tilvikum heldur létu þá frekar stunda grunnrannsóknir og náttúrufarskannanir til undirbúnings því að þessi svæði yrðu svo friðuð. Það skiptir miklu máli hvaða sýn (Forseti hringir.) menn hafa akkúrat á þessa hluti.