133. löggjafarþing — 59. fundur,  24. jan. 2007.

geðheilbrigðisþjónusta við aldraða.

505. mál
[12:26]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 2. þm. Suðurk., Helga Þorbergsdóttir, spyr hvort unnið hafi verið eftir einhverjum af ábendingum faghóps sem ráðherra skipaði og fól að skoða hvernig bæta megi geðheilbrigðisþjónustu við aldraða, þá hverjum og á hvaða hátt.

Virðulegi forseti. Faghópurinn sem skipaður var til að fjalla um þessi mál skilaði mér ábendingum sínum í apríl sl. Ég fór yfir þær ábendingar og tillögur og niðurstaða mín varð sú að byggja áherslur mínar í geðheilbrigðisþjónustu við aldraða á þeim. Að mínu mati er með þessu stigið stórt skref í stefnumótun sem boðar breytta og bætta geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða, og vinna við að hrinda verkefnunum í framkvæmd er þegar hafin. Ábendingar faghópsins lutu m.a. að því að efla forvarnir og að því að auka hlutverk heilsugæslu á þessu sviði. Hins vegar voru tillögur um uppbyggingu sérhæfðrar þjónustu við aldrað fólk með geðsjúkdóma en að mati faghópsins er það brýnasta verkefnið, eins og hér kom fram í máli hv. þingmanns. Faghópurinn lagði til að komið yrði á fót geðdeild á öldrunarsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss. Einnig að komið yrði á fót göngudeild fyrir aldraða með geðsjúkdóma þar sem fram færi mat, meðferð og ráðgjöf. Jafnframt var lagt til að sett yrði á laggirnar þverfaglegt vettvangsteymi til að sinna umönnun og meðferð með vitjunum í heimahús. Loks lagði nefndin til að skipulögð yrði ráðgjafarþjónusta á landsvísu fyrir heilsugæslu, spítaladeildir og hjúkrunarheimili þannig að tryggja mætti öldruðu fólki um allt land sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu.

Virðulegi forseti. Um framkvæmd þessarar ábendingar er það að segja að Landspítali – háskólasjúkrahús hefur kynnt okkur áætlun sína um uppbyggingu sérhæfðrar þjónustu við aldraða með geðsjúkdóma. Við fyrstu skoðun sýnist mér áætlun sjúkrahússins fara að fullu saman við ábendingar faghópsins þar sem gert er ráð fyrir ráðgjafarþjónustu á landsvísu sem starfrækt væri í tengslum við göngudeild, göngudeild með þjónustu geðlækna, sálfræðinga, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga, og legudeild þar sem m.a. yrði mögulegt að taka á móti fólki sem þarf á slíkri þjónustu að halda.

Eins og áður hefur komið fram er ákveðið að í nýju hjúkrunarheimili sem mun rísa við Suðurlandsbraut verði sérstök geðhjúkrunardeild fyrir aldraða og í áætlun sjúkrahússins er miðað við að sérstök tengsl verði þar á milli. Gangi áætlun LSH eftir mun göngudeildarstarfsemi og ráðgjafarþjónustu eins og hér hefur verið lýst hefjast að hluta í mars á þessu ári og legudeild taka til starfa að hluta til næsta haust. Þá er miðað við að allir þættir starfseminnar, þ.e. legudeild, göngudeild, heimaþjónusta og ráðgjafarþjónusta, verði að hluta til orðnir virkir í febrúar 2008 og full starfsemi allra þátta verði komin á haustið 2008.

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög hve skjótt Landspítali – háskólasjúkrahús hefur brugðist við og tekist á tiltölulega stuttum tíma að móta, að því er mér virðist, vandaða framkvæmdaáætlun í samræmi við nýja stefnu geðheilbrigðisþjónustu við aldraða. Ég vil þó taka fram að ráðuneytið og sjúkrahúsið eiga eftir að fara yfir áætlunina í sameiningu til að leggja lokahönd á útfærsluna og fara yfir kostnaðartölur. Af minni hálfu verður lagt kapp á að ljúka þeirri vinnu hið fyrsta með það að markmiði að hefja starfsemi sem fyrst.

Eins og ég gat áðan um er einnig markmið að efla forvarnir og auka hlutverk heilsugæslu á sviði geðheilbrigðisþjónustu við aldraða. Það er óhætt að fullyrða að ráðgjafarþjónustan sem miðað er við að LSH muni sinna á eftir að gegna þýðingarmiklu hlutverki hvað þetta varðar. Hlutverk þjónustunnar verður að veita heilbrigðisstarfsfólki landsins upplýsingar og stuðning varðandi vandamál sem snerta geðsjúkdóma aldraðs fólks. Með þessu móti fær starfsfólk heilsugæslustöðvanna faglegan bakhjarl þar sem það getur sótt ráðgjöf og stuðning og byggt upp eigin þekkingu þegar fram í sækir.

Ég vil líka benda á að heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður flestra í heilbrigðisþjónustunni og ég hef lagt áherslu á það í stefnu minni varðandi öldrunarþjónustu að aukin áhersla verði lögð á reglubundnar heimsóknir heimilislækna til aldraðra sem njóta heimahjúkrunar. Ég hef vakið máls á þessu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þar hefur það hlotið góðar undirtektir.

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega þakka fyrirspyrjanda fyrir að færa hér fram spurningar um þetta brýna verkefni en hv. þm. Helga Þorbergsdóttir tók einmitt þátt í starfi þessarar nefndar og ég lýsi því yfir að niðurstaða nefndarinnar var að mínu mati afar fagleg og góð.