133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[15:34]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Spurningin er alls ekki fáránleg. Hún er borin fram í hárréttu samhengi við það frumvarp sem hér er til umræðu og er að efni til ættað frá nefnd sem hv. þingmaður veitti forstöðu. Af þeim hópum öllum sem ég tiltók þarna er það aðeins einn, fíkniefnabrotamenn, sem fá á sig sérstakt ákvæði og eru í fimm ára löngu banni frá þessum starfsvettvangi.

Ég spyr enn: Af hverju gildir það um þá? Hver er hin sérstaka ástæða fyrir slíka menn en ekki morðingja, ræningja, fjárglæframenn, þá sem sannast hefur á heimilisofbeldi eða drykkjumenn?

Einu svörin sem ég fæ frá hv. þm. Ástu Möller er að búið sé að setja sakavottorðsákvæði inn í frumvarpið. Það er rétt, forseti, það er búið að gera það. Það var áður í athugasemdum við frumvarpið. Það á auðvitað miklu betur heima í því, eigi það heima hér yfir höfuð á það miklu betur heima í því. En hv. þm. Ásta Möller hefur því miður ekki lesið það frumvarp sem hún ræðir hér um því að 4. mgr. 10. gr. um sakavottorðið er þannig um rétt til upplýsinga úr sakaskrá, með leyfi forseta: „… um það hvort tiltekinn einstaklingur, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum [þ.e. stofnana og samtaka], hefur hlotið dóm vegna brota sem 3. mgr. tekur til að fengnu samþykki hans.“ — Sem 3. mgr. tekur til, forseti.

Til hvers tekur hún? Hún tekur til XXII. kafla almennra hegningarlaga og þeirra sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Það kemst ekkert upp um morðingja, ræningja, fjárglæframann, heimilisofbeldisafbrotamann og drykkjumann í þessari sakaskrá. Eðlilega ekki, því að þetta er ekki mjög heppileg leið til að gera út um það. Það á auðvitað að treysta forstöðumönnunum fyrir því með almennum leiðbeiningum hvaða skilyrði menn þurfa að uppfylla sem koma að þessu starfi og sjálfboðaliðar sem í raun og veru eru ekki ráðnir í starf.