133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

færanleg sjúkrastöð í Palestínu.

7. mál
[17:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir málflutning hv. þm. Jóns Kristjánssonar sem er 1. flutningsmaður að þessu þingmáli sem lýtur að kaupum og rekstri á færanlegri sjúkrastöð í Palestínu. En lagt er til að fjármálaráðherra beiti sér fyrir því að fé verði veitt til kaupa á slíkri sjúkrastöð. Ég vil taka undir það sem hér kom fram að þörfin er mjög brýn. Í niðurlagi greinargerðar segir, með leyfi forseta:

„Flutningsmenn telja nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld beini sérstaklega sjónum að aðstæðum Palestínumanna og leiti leiða til að takmarka það tjón sem aðgerðir Ísraelsmanna valda palestínsku samfélagi og velferðarþjónustu í samræmi við auknar áherslur stjórnvalda og Alþingis á alþjóðlega þróunarsamvinnu og þátttöku í friðargæslu. Með því að Alþingi veiti fé til kaupa á færanlegri sjúkrastöð getur Ísland lagt sitt af mörkum til að bæta úr brýnni þörf fyrir heilsugæslu á hluta af sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna á meðan ófriðarástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins varir.“

Ég vek athygli á að meðal flutningsmanna eru tveir alþingismenn úr röðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Þuríður Backman, en bæði heimsóttu þau Palestínu fyrir ári eða svo og kynntust af eigin raun þeim hörmungum sem þar blasa við. Ég hef einnig farið til Palestínu, ferðaðist talsvert um hernumdu svæðin þar og kynnst því við hvaða kost fólk á þeim slóðum býr.

Við erum auk þess að verða vitni að ljótum leik Ísraela, sem hernámsliðið í Palestínu leikur. Sá leikur er mjög andlýðræðislegur því ekki er nóg með að þrengt sé að Palestínu í þeim skilningi að landamærin séu ekki virt heldur er hlaðið inn landnemabyggðum, byggðum landsránsmanna, þannig að nú skipta þeir hundruðum þúsunda sem hafa tekið sér bólfestu í trássi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna innan landamæra Palestínu. Ekki er nóg með að þau landamæri sem byggja á samþykktum Sameinuðu þjóðanna séu ekki virt, heldur er einnig þrengt að fólkinu á aðra lund.

Þannig var efnt til kosninga í Ísrael fyrir nokkru síðan þar sem Hamas-samtökin báru sigur úr býtum. Þau samtök og forræði þeirra var hins vegar ekki virt af Ísraelum og hefur þeim tekist að búa svo um hnúta að væringar hófust á milli fylkinga Fata-hreyfingarinnar annars vegar og Hamas hins vegar. Þetta er samkvæmt gamalkunnri formúlu um að deila og drottna.

Ég ætlaði ekki að ræða um pólitískt ástand í Palestínu en þó verða þessir hlutir ekki slitnir úr tengslum við innra stoðkerfi samfélagsins og hvernig samfélagið er leikið pólitískt.

Við skulum ekki gleyma því að það eru Ísraelar sem innheimta alla tolla og gjöld og skatta í Palestínu. Það er á valdi ísraelska hernámsliðsins að skammta landsmönnum fé til rekstrar velferðarþjónustunni. Þegar Hamas komst til valda var gripið til þeirrar hefndarráðstöfunar að fjársvelta Palestínumenn og palestínska velferðarkerfið. Svo er komið að þeir höfðu verið mánuðum saman án kaups sem höfðu starfa sinn þar. Þetta bitnaði að sjálfsögðu illa á heilsugæslunni sem fékk ekki nauðsynlega fjármuni til kaupa á lyfjum og öðrum tækjum.

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til að taka undir það sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni. Ég vek athygli á að að þingmálinu standa þingmenn úr fjórum flokkum, öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum, þ.e. Framsókn, Samfylkingu, Frjálslynda flokknum og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Ég vek jafnframt athygli á að málið hefur verið lagt fram á tveimur öðrum þingum, tveimur undangengnum þingum, og sannast sagna lýsi ég furðu yfir því að það skuli ekki hafa hlotið náð fyrir meiri hlutanum á þingi. Væri nær að beina fjármunum og kröftum okkar inn á þær brautir að styrkja heilsugæslu í Palestínu en að styrkja hernaðaraðgerðir í Afganistan og Írak eins og við höfum gert.

Hæstv. forseti. Ég lýsi eindregnum stuðningi við þingmálið.