133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[18:33]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Rök mín fyrir að kalla þetta pappírsgerning varða ekki virðingu Alþingis heldur nákvæmlega það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson talaði um, að í úrskurði óbyggðanefndar stendur annað en það sem forsætisráðherra hélt fram. Óbyggðanefnd segir einmitt að það sem gerðist árið 1965 hafi alls ekki verið tilfærsla eignarréttar heldur hafi það verið afhending nýtingarréttar. Mér þykir það nokkuð djarft af hæstv. forsætisráðherra að koma hingað í stólinn og halda öðru fram um það en óbyggðanefnd hefur úrskurðað. En það er nokkuð í stíl við stærilæti forsætisráðherra í þinginu og þá venju hans sem hann hefur tekið upp frá forverum sínum að svara mönnum helst engu sem hér spyrja. Af hverju? spurði ég. Og spyr enn: Af hverju kemur það ekki til álita? Hver eru þá rök með eða á móti að ríkið auki hlut sinn í Landsvirkjun um þann hálfa milljarð sem um er að tefla og eru einu rök forsætisráðherra í þessu vandasama og viðkvæma máli?

Forseti. Ég hvet til þess að hæstv. forsætisráðherra svari þessari spurningu.