133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

hlutafélög o.fl.

516. mál
[20:29]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og ýmis félagaform varðandi skiptingu og samruna. Ég fagna þessu frumvarpi því að þetta gerir útrásina enn virkari þar sem menn geta farið að vinna með alla Evrópu nánast sem sitt heimasvæði.

Hins vegar hefur verið vakin athygli á, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti á áðan, að hinir ótrúlega lágu þröskuldar sem þarf fyrir samruna á íslenskum markaði hafa tvennt í för með sér: Annars vegar að samkeppniseftirliti er drekkt með alls konar smámunum og hlutum sem það ætti í rauninni ekkert að vera að skipta sér af, og hins vegar að þetta ferli sem er mjög langvinnt og getur tekur vikur og mánuði, setur allan rekstur beggja fyrirtækjanna í limbó og hindrar í rauninni samruna lítilla fyrirtækja sem ætti að vera sjálfsagður hlutur og allt í lagi. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort til greina komi að nefndin skoði þetta með velvilja ráðuneytisins í huga, sem er höfundur að umræddu frumvarpi, og hugi jafnvel að því að aðlaga íslenska þröskulda því sem gerist í Evrópu almennt þannig að Samkeppniseftirlitið geti verið að sinna alvörumálum á þessu sviði.

Ég tel að þetta sé mjög gott frumvarp og auðvitað er þetta flókið mál. Evrópa er flókin, fjöldi þjóða og fjöldi reglna sem þarf að setja undir einn hatt. En ég hlakka til að takast á við þessi flóknu vandamál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.