133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

samkeppnislög.

522. mál
[20:56]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju með það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég held að þær hugmyndir sem þar birtast séu á margan hátt afar athyglisverðar og mikilvægt innlegg og í reynd framfaraskref hvað varðar þá þætti málsins sem það tekur á. Á hinn bóginn eru einstaka atriði sem ég tel að kannski hefði átt að nota ferðina til að taka á, vegna þess að eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi áðan er þetta ekki í fyrsta skipti sem við fjöllum um samkeppnislög á þessu kjörtímabili.

Fyrir tveimur árum eða svo fór ríkisstjórnin í þá aðgerð að veikja samkeppnislögin þar sem m.a. voru teknar út heimildir, afar mikilvægar heimildir í 17. gr. þeirra laga, sem heimiluðu Samkeppniseftirlitinu að ráðast til aðgerða þar sem aðstæður væru skaðlegar samkeppni. Sú heimild var tekin út.

Eðlilega vaknar þessi umræða nú í aðdraganda þess að ríkisstjórnin og Alþingi hafa ákveðið að lækka virðisaukaskatt á matvælum en menn óttast það mjög að sú lækkun skili sér ekki eins og að er stefnt.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra í fyrsta lagi hvort ekki sé eðlilegt í framhaldi af þessari umræðu að efnahags- og viðskiptanefnd taki þennan þátt upp við meðferð málsins og skoði það sérstaklega hvort rétt sé að setja þetta ákvæði inn á nýjan leik til að efla og styrkja samkeppnislögin. Í öðru lagi, af því hér er verið að fjalla um heimildir Samkeppniseftirlitsins og verkaskiptingu, hvort ekki sé eðlilegt að Samkeppniseftirlitið á Íslandi hafi sömu heimildir og samkeppniseftirlit víðast hvar annars staðar, í Bandaríkjunum og Evrópu, til (Forseti hringir.) leitar, þ.e. til húsleitar á vettvangi og víðar.