133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

samkeppnislög.

522. mál
[20:59]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera að ég hafi ekki verið nægilega skýr í máli mínu eða að hæstv. ráðherra hafi ekki áttað sig á þeirri fyrirspurn sem hér var borin upp.

Fyrir tveimur árum voru felldar úr þágildandi samkeppnislögum heimildir fyrir Samkeppniseftirlitið, þáverandi Samkeppnisstofnun, að bregðast við þar sem aðstæður á markaði væru þess eðlis að þær væru líklegar til að vera skaðlegar samkeppni. Þetta var afar mikilvæg heimild sem hugsanlega hefði mátt nýta nú en er ekki lengur til staðar.

Þetta hlaut mikla umræðu í þinginu og því spyr ég hæstv. ráðherra, ítreka þá fyrirspurn, hvort ekki sé eðlilegt að í meðförum málsins í efnahags- og viðskiptanefnd verði þetta mál tekið upp á nýjan leik í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi og það endurskoðað hvort ekki sé rétt að setja þetta ákvæði aftur inn.

Í annan stað spurði ég hæstv. ráðherra hvers vegna ekki sé líka kveðið á um auknar leitarheimildir í þessu frumvarpi, þ.e. að heimilt sé að leita að gögnum í híbýlum manna og jafnvel bifreiðum og víðar, í ljósi þess að í þessu frumvarpi er það dregið mjög skýrt fram að ýmis samkeppnisbrot séu mjög alvarleg og geti valdið verulegu tjóni í samfélaginu.

Ég ítreka þessar fyrirspurnir því að jafnvel þótt mál séu til meðferðar í einhverjum stofnunum, í nefndum eða einhvers staðar úti í bæ þá er það einfaldlega Alþingi sem afgreiðir þessi mál.

Nú er hæstv. ráðherra kominn til þings með frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, er þegar búinn að opna á samkeppnislögin, og því ítreka ég þá fyrirspurn: Er ekki eðlilegt að efnahags- og viðskiptanefnd taki þessi mál til sérstakrar skoðunar í meðförum málsins á þinginu?