133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

loftslagsmál.

293. mál
[14:45]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar spyr mig um loftslagsmál og hann spyr stórt, hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Meðal almennra orða er rétt að taka undir það með hv. þingmanni að flestar efasemdaraddir hafa þagnað og æ fleiri viðurkenna að loftslagsbreytingar af manna völdum sé hnattrænn vandi sem við leysum aðeins með sameiginlegu átaki ríkja heims og Ísland vinnur með öðrum ríkjum að því að draga úr loftslagsbreytingum innan ramma loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókunarinnar. Stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kyoto-bókunarinnar var samþykkt í ríkisstjórn árið 2002 og er sú stefna sem stjórnvöld enn þá vinna eftir. Þessi stefnumörkun var m.a. kynnt hér í tengslum við staðfestingu Kyoto-bókunarinnar.

En íslensk stjórnvöld hafa einnig lagt fram sjónarmið í upphafi nýrra samningaviðræðna um bætta framkvæmd loftslagssamningsins og framhald og endurskoðun Kyoto-bókunarinnar. Þar kemur m.a. fram að Ísland telur alþjóðlega samvinnu nauðsynlega til að takast á við loftslagsvandann og að þróuð ríki eigi áfram að vera leiðandi í þeirri baráttu en þá hljóti einnig að þurfa að horfa til og skoða leiðir til að beina efnahagsþróun ört vaxandi þróunarríkja inn á loftslagsvænni brautir.

Meðal þessara sjónarmiða Íslendinga er líka að það eigi að leita leiða til að auka ábyrgð fyrirtækja og atvinnulífsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og það segir sig sjálft að slíkt er nauðsynlegt í heimi hnattvæðingar. En auk þessa eru upplýsingar um stefnumörkun Íslands og framkvæmd á ákvæðum loftslagssamningsins að finna í nýjustu skýrslu Íslands til skrifstofu samningsins sem var skilað fyrr á þessu ári og ég hef gert ráðstafanir til þess að fyrirspyrjandi fái öll þessi gögn í hendur og að þau verði þingheimi aðgengileg. Stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er skýr og skjalfest og aðgengileg þeim sem vilja kynna sér hana en mér sýnist ég hafa tíma, herra forseti, til að nýta þetta tækifæri til að fjalla aðeins nánar um framkvæmd stefnunnar til að gefa hv. þingmanni heldur fyllra svar og um leið finnst mér rétt að upplýsa að samráðsnefnd átta ráðuneyta í loftslagsmálum er nú að leggja lokahönd á uppfærða stefnu sem fer síðan fyrir ríkisstjórn. Þessi nýja stefna er framhald stefnunnar frá 2002 og fer því vel á því að stikla á stóru varðandi framkvæmd hennar nú og kynna svo nýju stefnuna sem ég vona að verði innan skamms.

Það má segja að flestir þættir loftslagsstefnunnar frá 2002 hafi komið til framkvæmda með einhverjum hætti og ég ætla að nefna nokkur atriði í því samhengi. Í fyrsta lagi nýtt olíugjaldskerfi sem kom til framkvæmda í júlí 2005 og sú löggjöf breytti fyrirkomulagi við skattlagningu á dísilolíu og á að leiða til þess að hlutur lítilla dísilbifreiða í bílaflotanum mun aukast og þannig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í umferðinni. Nýjar tölur benda til þess að þetta sé að gerast.

Vörugjöld hafa verið felld niður af loftslagsvænum ökutækjum, svo sem rafbílum og vetnisbílum, og lækkuð á svokölluðum tvíorkubílum eða tvinnbílum. Í loftslagsstefnunni eru sett mjög ströng viðmiðunarmörk um losun flúorkolefna frá álverum sem eru innan við þriðjungur af meðallosun þessara efna á heimsvísu, miðað við framleitt tonn á áli. Bæði álverin sem nú starfa á Íslandi hafa náð þeim viðmiðunarmörkum og ef orkuþátturinn er tekinn með þá er óhætt að fullyrða að losun gróðurhúsalofttegunda og tonn af framleiddu áli á Íslandi er með því allægsta sem þekkist í heimi ef ekki hið lægsta.

Þá vil ég nefna sérstakt átak stjórnvalda um aukna bindingu kolefnis úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt sem tókst vel. Það hefur tekist vel og hefur skilað sér í aukinni bindingu og jafnframt skilað sér í betri vísindalegri þekkingu á bindingaraðferðum. Í þessu samhengi má líka nefna aðgerðir eins og söfnun og notkun metangass á vegum Sorpu og stuðning stjórnvalda við verkefni á sviði vetnistækni. Það má segja að stefna Íslands og framkvæmd hennar sé vel kynnt á alþjóðavettvangi og alþjóðasamtök hafa séð ástæðu til að veita Íslandi viðurkenningu fyrir árangur í loftslagsmálum. Á ellefta aðildarríkjaþingi samningsins í Montreal árið 2005 var Ísland eitt af þremur ríkjum sem var veitt viðurkenning af samtökunum The Climate Group og það var einkum fyrir þrjú atriði: hátt hlutfall endurnýjanlegra orkulinda í orkubúskapnum, átak til að binda kolefni með landgræðslu og skógrækt og loks fyrir nýsköpunarverkefni á sviði vetnistækni.