133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

dragnótaveiðar.

399. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur skýrt fram í því sem hæstv. ráðherra segir að rökin sem menn hafa fyrir stjórn dragnótaveiðanna snúast ekki um fiskifræði vegna þess að Hafrannsóknastofnun hefur sagt að þetta hafi ekkert með fiskifræði að gera. Maður verður þó hugsi yfir því þegar maður hefur séð hvernig steinbíturinn hringar sig utan um hrognin sín á sandbleyðunum. Það hefur verið sýnt í sjónvarpi þannig að fólk hefur séð hvernig það er. Skyldi nú ekki dragnót geta haft áhrif á búsvæði steinbíts að minnsta kosti á hrygningartímanum? En hvað um það.

Okkur þingmönnum hafa borist ályktanir frá þeim aðilum sem hæstv. ráðherra nefndi, Skagfirðingum, og þeir vilja að línan verði dregin úr Ásnefi að vestan og í Þórðarhöfða að austan. Við höfum líka séð áskoranir frá þeim sem búa við Húnaflóann sem vilja að þar verði bannað að veiða innan línu sem verði dregin úr Kálfshamarsvita á Skaga í Gjögurvita á Ströndum og Strandamenn vilja þetta líka. Ég tel að hæstv. ráðherra þurfi að horfast í augu við að þetta er byggðamál, að þetta er atvinnumál byggðanna á þessum svæðum sem hér eru á ferðinni úr því að menn vilja ekki meina að nein fiskifræði sé í þessu.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að hann spáði deilum um þetta mál áfram. Af hverju skyldu þær deilur spretta? Þær geta aldrei sprottið af neinu öðru en því að annars vegar séu það heimamenn sem vilji friða sín fiskimið og fá að nýta þau með þeim hætti sem þeir telja sér henta og að hins vegar séu útgerðarmenn sem vilji fara þangað sem þá lystir til þess að veiða á mismunandi stórum skipum. En með hvorum ætlar hæstv. sjávarútvegsráðherra þá að standa? Ég tel að (Gripið fram í.) það sé engin spurning hvar menn eigi að standa í þessu máli.