133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

svæðisbundin fiskveiðistjórn.

401. mál
[15:25]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú verð ég að segja hv. 10. þingmanni Norðvesturkjördæmis til hróss að hann hefur aðeins létt lund mína og gert mér aðeins hugarhægara vegna þess að hann sagði að þessi mál væru ekki jafnflókin og ég ímyndaði mér. Ég verð að játa að þetta greiðir mér aðeins leið í þessum erfiða málaflokki sem mér hefur fundist fiskveiðistjórnin satt að segja vera, vegna þess að uppi eru mjög mörg sjónarmið. Mér hefur fundist afskaplega flókið að velta þessum hlutum öllum fyrir mér, bæði þegar ég ræði við vísindamenn og þá sem starfa í þessari grein. Þess vegna hefur mér stundum fundist erfitt að sjá skóginn fyrir trjánum því það er dálítið erfitt að fóta sig þegar maður er búinn að fá mjög mikið af upplýsingum sem eru kannski ekki alveg augljósar fyrir manni.

Að öðru leyti vil ég segja að það er að vísu alveg rétt hjá hv. þingmanni að deila má um þetta samband milli stærðar hrygningarstofns og nýliðunar, en það hefur verið álit íslenskra fiskifræðinga að þegar hrygningarstofninn er kominn niður í ákveðið lágmark fari það klárlega að hafa áhrif á nýliðun. Það er áhyggjuefni sem mjög margir, a.m.k. fiskifræðingar, hafa um stöðu hrygningarstofns okkar núna, þ.e. að hann sé kominn niður í það lágmark að það sé farið að hafa neikvæð áhrif á nýliðunina.

Ég hef ekki áhyggjur af því, eins og hv. þingmaður sagði áðan, að við séum að komast í þá stöðu að við séum að hætta að nota tiltekin fiskimið. Ég held að þvert á móti sé sóknarmáttur flota okkar svo mikill að það sé ekkert sem bendir til þess. Umræðan sem við tókum áðan t.d. um dragnótina er einmitt dæmi um að menn hafa áhyggjur af því að verið sé að sækja inn á þessi hefðbundnu heimamið af bátum utan svæðisins, vegna þess að þeir eru auðvitað að leita sér að bleyðum sem gefa sem mest fiskirí. Við sjáum línuaflann, sem hv. þingmaður nefndi áðan. Hvergi nokkurs staðar hefur orðið jafnmikill vöxtur í nokkrum veiðum og einmitt í línuveiðum, svo mikill vöxtur raunar að ýmsir hafa talið ástæðu til að hafa áhyggjur af því, ég hef þær í sjálfu sér ekki. Ég hef því ekki þær sömu áhyggjur (Forseti hringir.) og hv. þingmaður að við séum að vannýta einhvern hluta af fiskimiðunum vegna fiskveiðistjórnarinnar en það er ýmislegt annað sem hægt væri að tala um í sambandi við fiskveiðistjórnina.