133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

stjórn fiskveiða.

432. mál
[12:43]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að sjálfstæðismenn halda gríðarlega mikið upp á þetta kvótakerfi sitt. Þeir virðast lifa í þeirri trú að það verði meira spennandi fyrir ferðamanninn að fá að veiða fiskinn ef hann er innan kvótakerfisins.

Ég er ekkert viss um að svo sé, herra forseti. Ég held að það sé ekkert meira spennandi. En það er greinilegt að sjálfstæðismenn halda að það verði miklu meira spennandi ef það er hægt að hafa þetta innan kerfisins.

Mig langar að spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndarinnar hvort ekki sé hægt að beita einhverjum öðrum aðferðum, t.d. að hafa frjálsar veiðar einn kílómetra frá landi til að aflétta þessum eftirlitskostnaði. Þessir bátar fara trúlega ekki með ferðamennina mjög mikið út á rúmsjó. Þá þyrfti ekki að fara að mæla upp úr bátunum kvölds og morgna þegar þeir koma að landi heldur væri kannski hægt að fylgjast með að þeir væru þá bara á ákveðnum slóðum og aflétta þessum eftirlitskostnaði.

Ef það er ekki vilji til þess, ætla menn þá að auka eftirlitskostnað? Hann hlýtur að vaxa ef þessi ferðaþjónusta verður jafnblómleg og -spennandi og menn halda. Það er greinilegt að hv. þingmaður heldur að það trekki mjög að veiða innan kvóta, og ég spyr: Mun eftirlitskostnaðurinn ekki vaxa af þessu ef þetta verður svona spennandi og bátarnir svo margir?