133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

heildararðsemi stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmda fyrir þjóðarbúið.

19. mál
[19:00]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég leiði hjá mér tal hv. þingmanns um áherslur vinstri manna í þessum efnum á umliðnum áratugum eða liðnum öldum. Hv. þingmaður má leika sér eins og hann vill með það og halda því fram að allt verið vitlaust sem allir aðrir hafa sagt og gert nema sjálfstæðismenn. Það er auðvitað feiknarlega málefnalegt og uppbyggilegt að ræða hlutina þannig.

Ef hann vill ræða um Búrfell og Straumsvík þá kann ég þá sögu býsna vel. Ég veit t.d. mjög vel að raforkuverðið sem samið var um í byrjun var svo hörmulega lágt að það var ítrekað við að setja Landsvirkjun á hausinn. Það varð að hækka raforkuverðið til almennra nota í landinu í tvígang á áttunda áratugnum til að Landsvirkjun færi ekki á hausinn. Það var ekki fyrr en fyrirtækið var staðið að svindli, staðið að því að snuða Íslendinga um skatttekjur og raforkuverð með hækkun í hafi, með því að hóta málsókn, því að draga þá fyrir dóm í New York, að tókst að hækka raforkuverðið þannig að Landsvirkjun færi að ná endum saman. Ég kann þessa sögu nokkuð vel. Ég tel að þeir sem andæfðu samningnum á dögum viðreisnarstjórnarinnar hafi haft býsna mikið til síns mál. En auðvitað var allt rétt sem viðreisnarstjórnin gerði þegar sjálfstæðismenn eða Morgunblaðið ræða málið. Það þarf náttúrlega ekki að ræða það, þar á meðal líka að færa ekki út landhelgina og guð má vita hvað.

Varðandi afleidd störf í hátækniiðnaði er fróðlegt að ræða það. Á það bendir m.a. Efnahags- og framfarastofnunin. Þurfum við ekki að athuga fórnar- og ruðningskostnaðinn sem annað atvinnulíf ber? Það er væntanlega þannig, því miður, að það eru meiri líkur á að þessar risavöxnu fjárfestingar, með þensluáhrifum sínum í hagkerfinu, spennu á vinnumarkaði, óhagstæðum rekstrarskilyrðum í formi hás gengis, vaxta o.s.frv., flæmi fleiri hátæknistörf úr landi en verða til vegna þeirra. Það er ósköp einfaldlega þannig, eða hefur hv. þingmaður ekki heyrt um þau fyrirtæki sem hafa flúið land í hátækni- og upplýsingageiranum vegna þess að rekstrarskilyrði þeirra voru mjög bágborin á árunum 2002–2006? Það rekja menn beint til þensluáhrifa sem stóriðjufjárfestingar (Forseti hringir.) og vissulega reyndar fleiri þættir leiddu yfir okkur.