133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

málefni Byrgisins og ráðherraábyrgð.

[15:15]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Frá því að sjónvarpsþátturinn Kompás á Stöð 2 vakti í desember máls á málefni Byrgisins hafa verið miklar umræður í þjóðfélaginu um hver beri ábyrgð. Við höfum séð nokkra ráðherra víkja sér undan málinu, neita að tjá sig, benda á aðra, benda á formann fjárlaganefndar o.s.frv.

Á fundi félagsmálanefndar 31. janúar sl. kom fram hjá starfsmanni félagsmálaráðuneytisins að árið 2003 hafi starfsmenn bent ráðherra á að það þyrfti að skoða málefni og styrkveitingar til Byrgisins en það var ekki pólitískur vilji til að taka á málinu.

Þá erum við komin aftur að ráðherranum, frú forseti. Fyrir fimm árum kom það skýrt fram á minnisblaði á ríkisstjórnarfundi að rekstur Byrgisins væri slæmur, fjármálastjórn slæm, skammtímaskuldir miklar, bókhaldsóreiða o.s.frv. Í lögum um ráðherraábyrgð frá 19. febrúar 1963 segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá …“

Jafnframt segir í 7. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra sá, er ábyrgð ber á embættisathöfn samkvæmt greinunum hér á undan, verður einnig sóttur til ábyrgðar fyrir athafnir undirmanna sinna …“

Í 11. gr. segir:

„Brot gegn lögum þessum varða, eftir málavöxtum, embættismissi“ o.s.frv.

Í ljósi þessa vil ég fá að spyrja hér hæstv. forsætisráðherra: Hver ber að hans mati ábyrgð á mistökum í þessu máli? Telur hæstv. forsætisráðherra að félagsmálaráðherra eigi að segja af sér vegna Byrgismálsins?