133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

bæklingur um málefni aldraðra.

[15:27]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði mér því ekki hversu mikla peninga ráðherrar hafi tekið úr sjóðnum til sérstakrar kynningarstarfsemi fyrir sjálfa sig.

Þetta er ekki upplýsingarit. Þetta er loforðalisti um það hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera á næstu árum. Á næstu þremur árum ætlar hæstv. ráðherra að gera þetta og á næstu tveimur árum hitt. Þannig er þessi bæklingur. Þetta er ekki almennt upplýsingarit. Ég get ekki séð að peningar úr sjóðnum eigi að greiða slíkt rit.

Hann á að greiða uppbyggingu og eflingu öldrunarþjónustu og um það snýst ekki þessi bæklingur. Ég spyr: Hversu miklir peningar hafa farið í þetta? Ég minni á það að hæstv. ráðherra er með á fjárlögum ráðstöfunarfé upp á 8 millj. á ári. Þeir peningar hafa stundum verið notaðir í svona bæklinga og það hefur verið mjög umdeilt. En að taka peninga úr Framkvæmdasjóði aldraðra í svona bækling, svona glansbækling — (Forseti hringir.) Hversu miklir peningar, hæstv. ráðherra?