133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

fyrirspurnir til ráðherra.

[15:41]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætla ekki að skipta mér af því hvað Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill spyrja um í þinginu en hins vegar verð ég að gera þá athugasemd við fundarstjórn forseta að að mínu viti eiga ekki heima undir þeim lið sem hér fór fram áðan í störfum þingsins, óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra, svona leikrit eins og sett var upp á milli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og hæstv. forsætisráðherra (Gripið fram í.) þar sem orðsvörin voru svo vandlega undirbúin að jafnvel fremstu leikstjórar hér á þinginu hefðu verið stoltir af. Ég verð að segja eins og hv. þingmaður —

(Forseti (RG): Forseti óskar eftir því að þingmenn hafi hljóð í salnum.)

Ég verð að segja, af því hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um framkvæmdir á hálendinu, að það var einmitt ein af þeim fyrirspurnum sem hér var lögð fram, óundirbúin, til samgönguráðherra, um framkvæmdir á hálendinu, nefnilega um þær fréttir að hæstv. samgönguráðherra hefði tekið því vel að fyrirtæki eitt hér á landi byðist til þess að leggja veg og eiga hann síðan um aldur og ævi sem er ný stefna í samgöngumálum á Íslandi. Ég vil segja að úr því að sú fyrirspurn varð að víkja fyrir leikriti Sjálfstæðisflokksins í umræðunni áðan óska ég úr þessum stóli eftir því að fá að heyja utandagskrárumræðu við hæstv. samgönguráðherra um þetta mál.