133. löggjafarþing — 65. fundur,  5. feb. 2007.

tæknifrjóvgun.

530. mál
[20:03]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæða til að halda því til haga þegar hv. þingmaður hefur hér talað að afstaða þessa hv. þingmanns til tillögu til þingsályktunar um nýtingu og geymslu stofnfrumna úr fósturvísum fyrir tveimur árum varð til þess að það mál náði ekki fram að ganga í þinginu. Það voru allir í nefndinni sammála um framgang þess máls, eftir því sem ég best veit, nema hv. þingmaður. Ég býst við að afstaða hans hafi orðið til þess að tillagan náði ekki fram að ganga.

Sú tillaga fól einungis í sér að það átti að gera úttekt á kostum þess og göllum út frá læknisfræðilegu, siðfræðilegu og trúarlegu sjónarmiði að heimila nýtingu og geymslu stofnfrumna úr fósturvísum og síðan átti að leggja fyrir þingið niðurstöðurnar um kostina og gallana þar sem fram áttu að koma skýrt skilgreindir kostir og gallar á málinu ásamt tillögum um frekari málsmeðferð. Á grundvelli þess, þegar slík umfjöllun hefði farið fram um kostina og gallana, m.a. ýmis álitamál, átti að liggja fyrir hvernig frekari málsmeðferð yrði og þar á meðal þá flutningur á frumvarpi.

Nú kaus hæstv. ráðherra, þegar þetta mál náði ekki fram að ganga, að leggja bara beint fram frumvarp um þetta mál, að það skyldi farið í þetta verkefni. Þingið hefur enga sérstaka skýrslu um kosti og galla eins og við kölluðum eftir nema það sem fram kemur í þessari greinargerð. Þess vegna fýsir mig að vita hvort hv. þingmaður sjái nú ekki eftir því að hafa ekki fallist á þessa tillögu sem flestir hér í þinginu vildu á sínum tíma samþykkja — aðrir en hv. þingmaður sem hefði þá fengið skýrslu um kostina og gallana frekar en fullbúið frumvarp til að taka afstöðu til. Mér þætti mjög fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður samþykkti þetta mál í þingflokki sínum og hvort hann hyggist styðja framgang þessa máls á þinginu.