133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[14:12]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir framlagningu þessa máls og rifja upp að þegar við á síðastliðnu þingi fjölluðum um frumvarp um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, var það grundvallaratriði í huga okkar samfylkingarmanna að raunar þyrfti að ljúka tveimur verkefnum áður en sú löggjöf yrði sett. Við settum því fram tillögu, sem var felld, um að ákvæðin um frjálsa för launafólks tæki ekki gildi fyrr en um síðustu áramót eða sjö mánuðum síðar en ætlað var vegna þess að við töldum brýnt að tvennt kæmi til áður en slík löggjöf yrði sett, þ.e. að mótuð yrði stefna í málefnum innflytjenda og síðan að settar yrðu fram aðgerðir til að styrkja vinnumarkaðskerfið til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Jafnframt, eins og kemur fram í nefndaráliti félagsmálanefndar, lögðum við áherslu á að kannað yrði hvaða leiðir væru færar til að auka upplýsingagjöf og aðstoð við erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði.

Við lögðum áherslu á að þetta yrði tilbúið í nóvembermánuði síðastliðnum en eitthvað hefur það tafist og lít ég svo á að það frumvarp sem verið er að kynna af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra sé einmitt til þess að koma til móts við það sem við lögðum til, þ.e. að styrkja vinnumarkaðskerfið til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Áður en ég fer yfir frumvarpið vil ég spyrja hæstv. ráðherra um fyrra atriðið sem við lögðum áherslu á. Það er mál sem við ræddum fyrir nokkrum dögum á þinginu, þ.e. um stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda. Ég vil minna á að við lögðum mikla áherslu á að stefnumótun í málefnum innflytjenda fengi þinglega meðferð og færi til umfjöllunar og afgreiðslu í félagsmálanefnd og þingið fengi að taka afstöðu til þeirra tillagna sem þar eru settar fram og eftir atvikum koma með breytingar á þeirri stefnumótun.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, meðan við fjöllum um þetta mál, hvort hann geti upplýst okkur í umræðunni hvort tekin hafi verið afstaða til þess af hálfu hæstv. ráðherra, og þá eftir atvikum ríkisstjórnarinnar, að málið um stefnumótun í málefnum innflytjenda verði lagt fram á þingi til efnislegrar meðferðar.

Varðandi það mál sem hér liggur fyrir sýnist mér, eins og ég hef haft tök á að kynna mér frumvarpið, að um sé að ræða mál sem hægt er að vænta mikils af. Ef ákvæðum frumvarpsins, ef að lögum verður, verður framfylgt eins og þau eru fram sett má vænta þess að hér sé á ferðinni afar framsækin löggjöf á vinnumarkaðssviðinu sem ástæða er til að fagna, því hún gefur vonir um að skipulega eigi að taka á þessum málum.

Hlutverk nefndarinnar, sem fór yfir málið með aðilum vinnumarkaðarins, var að fara yfir stöðu útlendinga sem starfa hér á landi. Lögð var áhersla á að fjölgun erlendra fyrirtækja sem hér starfa raski ekki reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast á íslenskum vinnumarkaði. Það er náttúrlega grundvallaratriði, virðulegi forseti, að vera þeirra útlendinga sem hingað koma til að starfa verði ekki til þess að rýra réttindi og kjör Íslendinga á vinnumarkaðnum vegna þess að þau réttindi sem íslensk verkalýðshreyfing hefur sótt, hvort sem það er í aðbúnaði, kjörum eða öðru, voru ekki fengin með neinum auðveldum hætti.

Auðvitað hlýtur verkalýðshreyfingin og við sem tölum máli verkafólks á þingi að reyna að tryggja það eins og kostur er að erlent starfsfólk sem kemur hingað til að vinna verði ekki til þess að raska réttindum og kjörum þessa fólks, sem er grundvallaratriði.

Nefndin átti að skoða hvort ástæða væri til að styrkja vinnumarkaðskerfið sem fyrir er til að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði, m.a. ítarlegar reglur um tilkynningarskyldu þjónustuveitenda sem koma með starfsmenn sína hingað til landsins.

Mér sýnist að svar nefndarinnar sem vann þetta mál hafi verið afdráttarlaust já, að nauðsynlegt væri að styrkja vinnumarkaðskerfið og það er það sem við sjáum í frumvarpinu. Einnig átti nefndin að skoða hvernig hægt væri að bæta framkvæmdina innan stjórnkerfisins til að tryggja að útlendingar sem hér dvelja starfi með lögmætum hætti og að áreiðanlegar upplýsingar um útlendinga sem hér vinna liggi fyrir á hverjum tíma.

Niðurstaðan er sem sagt sú, sem við fjöllum um hér, að styrkja stoðir núgildandi vinnumarkaðskerfis, og er það vel. En það sem þó er ástæða til að skoða er, og ég vil spyrja hæstv. ráðherra um ef hann er einhvers staðar nálægur. — Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hlýðir á mál mitt eða ekki.

(Forseti (RG): Forseti mun strax gera ráðstafanir til þess að kanna hvort ráðherrann er hér í hliðarherbergjum og ef svo er ekki að kanna hvort ráðherrann getur komið og hlýtt á ræðu þingmannsins.)

Mér er vandi á höndum, virðulegi forseti, vegna þess að ég ætlaði að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem hefur af einhverjum ástæðum horfið úr salnum.

(Forseti (RG): Forseti óskar eftir og leitar eftir því að hæstv. ráðherra komi í þingsal og hlýði á ræðu þingmannsins.)

Ég veit að hæstv. ráðherra er önnum kafinn en hann er hér að fylgja úr hlaði mikilvægu máli sem við þingmenn hefðum áhuga á að ráðherrann fylgdi úr hlaði alla leið, líka meðan við erum í ræðustóli að ræða málið vegna þess að það er ýmislegt sem við viljum spyrja hæstv. ráðherra um og mikilvægt að hann geti tekið það niður.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að mér sýndist ákvæði frumvarpsins vera mjög jákvæð og til þess fallin að styrkja stoðir vinnumarkaðskerfisins. En það sem ég tel þó ástæðu til að skoða og hef nokkrar áhyggjur af er hvort eftirlitsstofnanir séu í stakk búnar til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru sett með frumvarpinu. Hvernig er t.d. Vinnumálastofnun í stakk búin til að fylgja málunum eftir í samráði og samstarfi við verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda? Þá er ég að spyrja um á hve traustum stoðum þetta stendur fjárhagslega. Einnig er mikilvægt að reglur og framkvæmd varðandi uppbyggingu og skráningu erlendra þjónustufyrirtækja og erlendra starfsmanna sem hingað koma verði gerðar gegnsærri og skilvirkari og stjórnsýslan einfölduð.

Ég sé í frumvarpinu, í áliti fjárlagaskrifstofu, að ekki er gert ráð fyrir miklum fjármunum fyrir Vinnumálastofnun til að framfylgja ákvæðum þessa lagafrumvarps. Ekki er nóg að setja falleg ákvæði á blað í löggjöf ef erfitt er að framfylgja þeim, t.d. vegna peningaskorts. Hér er gert ráð fyrir að frumvarpið muni leiða til 7,5 millj. kr. útgjaldaaukningar hjá Vinnumálastofnun sem rúmist innan fjárlagaramma stofnunarinnar, er hér sagt.

Ég vil spyrja hvort forstöðumaður Vinnumálastofnunar sé sammála því að 7,5 millj. kr. dugi til að framkvæma ákvæði frumvarpsins og hvort þær 7,5 millj. kr., sem hér er sagt að þetta kosti, rúmist innan ramma núgildandi fjárlaga hjá Vinnumálastofnun. Þetta vildi ég spyrja hæstv. ráðherra um.

Síðan vildi ég, virðulegi forseti, spyrja nokkuð út í það sem kemur fram í frumvarpinu og vil vitna til þess sem fram kemur í athugasemdum með því, sem mér fannst hæstv. ráðherra ekki fara nægjanlega inn á. Í frumvarpinu kemur fram að markmiðið sé að unnt verði að viðhalda því eftirliti sem tíðkast á íslenskum vinnumarkaði með að ákvæði laga og kjarasamninga séu virt svo treysta megi stöðu starfsmanna sem sendir eru tímabundið hingað til lands á vegum erlendra fyrirtækja í tengslum við veitingu þjónustu. Hvernig á að gera þetta, hæstv. forseti? Ég spyr hæstv. ráðherra um það.

Ég hef reyndar ekki farið alveg ítarlega frá orði til orðs yfir einstakar greinar í frumvarpinu en ég gat ekki séð hvernig á að hrinda þessu í framkvæmd. Nú hlýtur ráðherrann að þekkja þetta út og inn. Því spyr ég hann hvernig eigi að gera það.

Í athugasemdum með frumvarpinu er verið að ræða um skyldur fyrirtækja til að veita íslenskum stjórnvöldum tilteknar upplýsingar varðandi starfsemi sína hér á landi. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þykir því eðlilegra að það komi fram í heiti laganna að þau eigi einnig við um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem veita þjónustu á Íslandi …“

Hverju er verið að breyta um skyldur fyrirtækja til að veita íslenskum stjórnvöldum tilteknar upplýsingar? Þetta er nokkuð sem við fórum yfir þegar við ræddum frumvarp um starfsmannaleigur og hef ég hug á að hæstv. ráðherra lýsi því nokkuð nánar en fram kom í ræðu hans áðan.

Hér stendur einnig, með leyfi forseta:

„Enn fremur er fyrirtækjum sem veita þjónustu hér á landi samtals lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum gert að hafa hér sérstakan fulltrúa sem kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins gagnvart stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins, en gert er ráð fyrir að þessi skylda hvíli á fyrirtækjum sem að jafnaði hafa sex eða fleiri starfsmenn á sínum vegum hér á landi.“

Það er ábyggilega mjög þarft að slíkt sé og eykur möguleikana á að hægt sé að halda utan um mál með þeim hætti að ekki sé verið að ganga á réttindi erlends starfsfólks né það að undirboð tíðkist sem rýri kjör innlends starfsfólks. Ég spyr: Hvernig á að framkvæma þetta og hver á að borga fyrir þennan sérstaka fulltrúa sem þarna er verið að tiltaka?

Þetta ætla ég að láta nægja varðandi spurningar um efni frumvarpsins en ég fæ tækifæri til að fjalla um það í félagsmálanefnd því málinu verður væntanlega vísað þangað.

Ég vil þó spyrjast fyrir um eitt, virðulegi forseti, að í þessari löggjöf er verið að taka á viðbótarákvæði sem eiga að tengjast lögunum um starfsmannaleigur, ef ég skil málið rétt, og er langur kafli í lok frumvarpsins um ákvæði sem styrkja eiga lög um starfsmannaleigur. Ég spyr, hæstv. forseti, á því hlýtur að vera einhver eðlileg skýring. Hvers vegna eru þau ákvæði ekki sett inn í lögin um starfsmannaleigur? Hvers vegna er þetta sett hér við? Ef menn vilja kynna sér ákvæði laga um starfsmannaleigur, þá eru þau ekki öll í þeim lögum heldur er að finna ýmis ákvæði sem tengjast starfsmannaleigum í þessu frumvarpi, þ.e. frumvarpi um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna þau ákvæði sem hér er fjallað um og snerta starfsmannaleigurnar hafi þá ekki farið inn í lögin um starfsmannaleigur. Vera má að á því sé eðlileg skýring, en engu að síður vil ég spyrja um það.

Ég vil einnig minnast á að þegar við fjölluðum um frumvarpið um starfsmannaleigur var töluverður ágreiningur um það mál. Við töldum að málið væri ekki þannig vaxið að hægt væri að treysta því að ekki yrði um undirboð á vinnumarkaði að ræða. Við í Samfylkingunni fluttum þá undir forustu Össurar Skarphéðinssonar breytingartillögu við það frumvarp um að notendafyrirtæki beri ábyrgð á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra starfskjara þrátt fyrir að starfssamband viðkomandi starfsmanns og notendafyrirtækis sé byggt á milligöngu starfsmannaleigu. Verkalýðshreyfingin eða margir þar voru óánægðir með að slíkt ákvæði væri ekki í lögum. Þar sem ég hef ekki haft tök á að fara alveg ítarlega ofan í þetta mál langar mig að spyrja hvort einhver breyting sé á þessu varðandi þetta ákvæði frumvarpsins. Er verið að leggja einhverjar skyldur á notendafyrirtækin um ábyrgð þeirra á því að allir sem hjá þeim starfa njóti launa og annarra sambærilegra starfskjara eins og hér eru á vinnumarkaðnum? Mér finnst afar mikilvægt að þetta komi fram og hvort einhver breyting sé hérna á.

Ég vil líka spyrja hvort algjört samkomulag hafi verið um þetta mál og ákvæði þess milli aðila vinnumarkaðarins, þ.e. verkalýðshreyfingarinnar og samtaka atvinnurekenda. Voru einhver ákvæði sem stóðu þar út af sem verkalýðshreyfingin vildi ná fram inn í þetta frumvarp, sem ekki náðist samstaða um, og ef svo er, hvaða ákvæði voru það þá? Ég held að mikilvægt sé fyrir umfjöllun félagsmálanefndar um málið að það liggi fyrir.

Síðan langar mig að spyrja ráðherra um tvennt í viðbót. Á þessu þingi fjölluðum við um lög um lögheimili. Þar vorum m.a. að fjalla um vandamálin sem tengdust fastri búsetu í atvinnuhúsnæði en mikil umræða hafði farið fram, eins og ráðherra veit, á síðari hluta síðasta árs um að útlendingar sem hér á landi starfa byggju við óviðunandi aðstæður í atvinnuhúsnæði. Ég man ekki betur en að afgreiðsla nefndarinnar hafi verið sú að leggja áherslu á að áður en við ljúkum þingi yrði sett ákvæði í lög sem tryggði viðunandi stöðu varðandi búsetu útlendinga, sem í miklum mæli hafði komið í ljós að byggju við óviðunandi aðstæður í atvinnuhúsnæði.

Mig minnir að sú nefnd sem ráðherra skipaði fyrir jólin og átti að fara ofan í þetta hafi átt að skila einhverri niðurstöðu fyrir janúarlok. Ég vil spyrja: Hvar er það starf statt? Megum við vænta þess að frumvarp verði fljótlega lagt fyrir þingið um þetta efni, sem ég og margir fleiri höfum áhyggjur af og vonandi ráðherra líka, þannig að við getum séð það þegar við fjöllum um frumvarpið hvað um það verður?

Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði, þar sem ég er að leita eftir ýmsum tölulegum upplýsingum sem snerta vinnumarkaðinn og erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði. Ég hef áhyggjur af því að við séum illa sett varðandi tölulegar upplýsingar og upplýsingagjöf um stöðu þessa fólks á vinnumarkaði sem er nú orðið um 15–16 þúsund, ef ég veit rétt. Ég hefði talið mikilvægt að meðan við erum að fjalla um málið í nefndinni fengjum við þetta svar frá hæstv. ráðherra sem fyrst, af því ég held að það gæti skipt máli í umfjöllun nefndarinnar og spyr hvað líði því svari.

Ég spyr m.a. um hvenær tilvik koma upp árið 2005 annars vegar og 2006 hins vegar, þar sem launakjör og aðbúnaður erlendra ríkisborgara var ekki í samræmi við íslenska löggjöf og kjarasamninga á vinnumarkaði. Ég held að afar fróðlegt sé að vita hvort t.d. ákvæðin um starfsmannaleigur, sem átti nú að endurskoða eftir tvö ár, ég held að liðið sé meira en ár síðan þau voru sett, hvort þau hafi skilað tilskildum árangri eins og við vonuðumst til og að því lýtur t.d. einn liður í þeirri fyrirspurn til ráðherrans sem hann hefur ekki enn svarað.

Ég held líka að afar mikilvægt sé að ráðherrann geti svarað þeirri spurningu hvernig fylgst er með því að í útboðum verktaka séu launakjör erlendra ríkisborgara, sem starfa á vegum þeirra, í samræmi við íslenska löggjöf og kjarasamninga á vinnumarkaði. Ég hef heyrt óþægilega mikið um að í gegnum verktaka séu launakjör ekki í samræmi við kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði. Það sé falið í útboðunum. Ég hef heyrt óþægilega mikið um það og ég spyr ráðherrann hvort hann eða ráðuneyti hans, eða Vinnumálastofnun hafi eitthvað orðið vör við slíkt eða gert sérstakar ráðstafanir til að kynna sér það.

Ég ætla að láta þetta nægja, virðulegi forseti, enda er tíma mínum að ljúka. Ég hef tök á að ræða þetta mál í félagsmálanefnd. En það mundi greiða mjög fyrir framgangi málsins ef hæstv. ráðherra hefði svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fram. Það er grundvallaratriði í þessu og öðrum málum sem tengjast erlendum starfsmönnum sem hingað koma á vinnumarkaðinn til að starfa í skemmri eða lengri tíma, að við búum betur að erlendu starfsfólki á vinnumarkaði og tryggjum, sem er grundvallaratriði, að ekki sé um undirboð að ræða, hvorki í kjörum né aðbúnaði hjá því fólki vegna þess að við tryggjum starfsfólk á vinnumarkaðnum með því að búa þannig um hnútana í allri löggjöf.