133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:27]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get skýrt mál mitt aðeins betur þegar ég sagði að flokkarnir hefðu brugðist. Ég tel að miðað við þær aðstæður sem ríktu í vor hefðum við átt að halda áfram með það kerfi sem við vorum með þar sem gefin voru út atvinnuleyfi og dvalarleyfi og við höfðum nokkurn veginn stjórn á því hverjir komu inn í landið. Það var þetta sem ég var að reyna að segja í vor þegar við ræddum þessi mál í félagsmálanefnd. Ég taldi það miklu vænlegra vegna þess að ég bjóst við að þróunin yrði með þeim hætti sem hún síðar varð.

Ég er ekkert endilega viss um að hér séu 17 þúsund manns, þeir gætu verið fleiri. Við höfum heyrt að skráningu sé jafnvel oft og tíðum töluvert ábótavant varðandi það hversu margir eru komnir inn í landið. Að sjálfsögðu tek ég undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að við þurfum að fá þetta upp á yfirborðið og Frjálslyndi flokkurinn er að sjálfsögðu reiðubúinn til að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða. Við þurfum að koma þessum hlutum í fastar skorður. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að það sem hefur skapað þetta ástand er í raun og veru þenslan. Ég tel að þetta hafi allt saman hafist með Kárahnjúkum. Þetta byrjaði allt með Kárahnjúkum. Þá hófst þetta geggjaða þensluástand sem verið hefur í þjóðfélaginu allar götur síðan. Þá komust atvinnurekendur upp á lagið með það eða fundu út að tiltölulega auðvelt væri fyrir þá að skaffa ódýrt vinnuafl erlendis frá og flytja það inn í landið í stríðum straumum, eins og þeir hafa því miður gert, og jafnvel hafi þeim þá dottið í hug leið til að brjóta á þessu fólki.

Virðulegi forseti. Ég vil ekki hafa svona ástand á íslenskum vinnumarkaði. Mér finnst það ekki vera okkur til framdráttar. Það er okkur ekki til sóma heldur sem þjóð að við séum með þannig ástand á vinnumarkaði að verið sé að brjóta á fólki sem hingað er komið með réttu til að vinna, og allt í lagi með það, og að í leiðinni sé verið að grafa undan því markaðslaunakerfi sem við höfum byggt upp á Íslandi og er náttúrlega undirstaða velferðarkerfisins á Íslandi.