133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[18:52]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hlutafélagið Greið leið var stofnað varð niðurstaða þeirra sú að skynsamlegra væri að fara í Kjalveg en Stórasand af þeim sökum að meiri sátt var um það á Norðvesturlandi. Auðvitað hlýt ég að beygja mig fyrir því. Það er ástæðan fyrir því að ég tel sjálfsagt að ráðast í þennan veg enda liggur það fyrir að Kjalvegur er hluti af grunnnetinu þegar við tölum um vegagerð í landinu. Þar yrði fylgt eftir þeirri stefnu sem Alþingi hefur þegar markað. Ég veit að hv. þingmanni er þetta fullkunnugt því hann er mikill áhugamaður um samgöngumál og skilur þarfir ferðaþjónustunnar.

Á hinn bóginn hygg ég að hv. þingmanni sé jafnkunnugt og mér um að bæði Borgfirðingar og Vestur-Húnvetningar hafa áhuga á að koma vegi yfir Arnarvatnsheiði og Hallmundarhraun, sem kemur þessu máli ekki við og er allt annar handleggur. Þegar við erum að tala um Sprengisand erum við auðvitað að tala um hvort Mývatnssvæðið eigi að tengjast beint Suðurlandi. Ýmsir í ferðaþjónustu hafa áhuga á því eins og ég hygg að hv. þingmaður viti vel. En eins og málin standa nú liggur beinast við að leggja áherslu á Kjalveg. Uppbygging þess vegar er byrjuð. Það er mikil samstaða um þennan veg, bæði á Suðurlandi og Norðurlandi og við eigum sem þingmenn að beygja okkur fyrir vilja sveitarfélaganna og vilja fólks í heimabyggð.