133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

vegagerð um Stórasand.

59. mál
[19:19]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Ég sé ástæðu, herra forseti, til að taka það fram að auðvitað verður að gæta að náttúruverndarsjónarmiðum og umhverfinu og ganga vel um landið. Sú stefna var tekin upp meðan ég var samgönguráðherra og getur hv. þingmaður horft til Háreksstaðaleiðar í því sambandi. Sá vegur er þannig lagður að hann er ekki ýttur upp eins og venja var hér áður fyrr, svo það sé alveg ljóst. Þegar verið er að tala um nýjan veg yfir Kjöl er auðvitað verið að tala um að ganga vel um landið, opna tvær námur, hygg ég, og sækja þangað efni í veginn.

Ég vil líka, herra forseti, að það sé alveg skýrt frá minni hálfu að ferðamenn eiga rétt á jafngóðum vegi og aðrir. Ef við leggjum veg um landið er nauðsynlegt, þegar um grunnnetið er að ræða, að allir bílar geti um þann veg farið. Hann verður að vera með fullri breidd, átta og hálfur metri helst, vegna þess að þeir fólksflutningabílar sem nú eru notaðir í ferðaþjónustu eru mjög frekir til vegarins og getur verið háskalegt að mæta þeim þegar svo ber undir.

En ég tek undir með hv. þingmanni að við höfum ekki staðið okkur nógu vel varðandi endurbætur á vegum landsins í tengslum við öryggismál og er beinast að benda á veginn milli Reykjavíkur og Akureyrar í því sambandi. Ég mun leggja áherslu á að í þeirri samgönguáætlun sem nú verður lögð fram verði verulegt fé til að eyða á milli Reykjavíkur og Akureyrar, styrkja alla þá kafla sem nauðsynlegt er að styrkja til að þeir hafi fullan burð og einnig til að við getum gert áætlun um það á mjög skömmum tíma að breikka veginn þannig að hann verði átta og hálfur metri alla leiðina, en því miður er hann sums staðar á þeirri leið ekki nema sex og hálfur metri.