133. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2007.

málefni Frjálslynda flokksins.

[12:02]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir að vekja athygli á pistli mínum sem var fluttur í fyrradag í síðdegisútvarpi Ríkisútvarpsins. Þar reifaði ég þær áhyggjur mínar sem ég hef gert áður, bæði á vettvangi þingsins sem og í málflutningi mínum á heimasíðu og víðar, af því sem ég hef viljað kalla daður frjálslyndra við stefnu sem við höfum hingað til verið laus við í íslenskum stjórnmálum, stefnu sem elur á ótta og andúð í garð þess harðduglega fólks sem hingað kemur og tekur þátt í íslensku efnahagslífi og vinnumarkaði. Ég hef jú lesið ræðu formanns frjálslyndra sem hann flutti á landsþinginu og þar fannst mér hann staðfesta einmitt það sem ég hef hingað til viljað kalla daður í þessum efnum þar sem ýjað er að því að kanna þurfi sakaferil þeirra aðila sem hingað sækja og þar sem ýjað er að því að kanna þurfi sérstaklega heilsufar þeirra útlendinga sem hingað sækja.

Við Íslendingar sem förum utan — það er nú þannig að það eru tugir Íslendinga sem sækja á hverju ári út, bæði til náms og starfs — höfum hingað til verið laus við að svona sé farið með okkar fólk. Ég get því ekki séð að við eigum að taka upp eitthvert slíkt hátterni hér á landi. Það er einungis þetta sem ég ýjaði að og ég stend við það að mér finnst þessi málflutningur frjálslyndra ekki vera þeim til framdráttar og ég yrði fyrst til að fagna því ef þeir hyrfu af þessari braut þar sem ýmislegt er gefið í skyn gagnvart því harðduglega fólki sem hingað sækir. Við eigum frekar að sameinast um að taka vel á þessum málum. Ríkisstjórnin hefur kynnt innflytjendastefnu sína og tel ég það vera merkilegt plagg sem við eigum að vinna eftir. Ég held að það sé þverpólitískur vilji og samstaða um að við eigum frekar að taka á í þessum málum og standa saman en ýja að þessum málum (Forseti hringir.) sem mér finnst vera gert í málflutningi frjálslyndra.