133. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2007.

málefni Frjálslynda flokksins.

[12:15]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að Frjálslyndir hafa verið að nokkru leyti svona eins máls flokkur. Fyrst var það fiskur og nú eru það útlendingar. (Gripið fram í: Frjálslyndir.) Það er mjög merkilegt þegar maður lítur til orðsins frjálslyndi, að þá er nú ekkert sem er líkt með því að vera frjálslyndur og stunda þá stefnu og þá orðræðu sem Frjálslyndir stunda í dag. Það er algerlega ljóst að verið er að ota því að í umræðunni að útlendingar sem hingað komi séu eitthvað veikir. Það er sett mjög framarlega í orðræðuna.

Ég get sagt við hv. þingmenn að sóttvarnir á Íslandi eru í ágætisfarvegi undir mjög góðri yfirstjórn Haraldar Briems sóttvarnalæknis. Við skoðum þá sem koma hingað til lands ef við teljum þörf á að skoða, það er gert alls staðar. Við skoðum m.a. fólk frá ákveðnum löndum þar sem við vitum að berklar eru útbreiddir (Gripið fram í.) til að hægt sé að taka á því og hjálpa því fólki. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) En við erum ekki að ota því að í umræðunni til þess að tortryggja útlendinga almennt. Það finnst mér vera ljótur leikur og það hafa Frjálslyndir gert. Ég tel að sá boðskapur sé ógeðfelldur, að ota þessu að í umræðunni.

Við erum með fólk af erlendu bergi brotið á um 10% af vinnumarkaði okkar. Mjög mikilvægt að þetta fólk hafi getað komið hingað og getað aðstoðað okkur. Sumt af því fólki verða góðir Íslendingar og munu aldrei fara héðan burt. Ég tel að við eigum að koma vel fram við fólkið sem kemur hingað til þess að aðstoða okkur og vera ekki að ota því að að það geti verið eitthvað veikara en annað fólk. Við tökum á því með eðlilegum hætti. Ég tel að formaður innflytjendaráðs, Sæunn Stefánsdóttir, hv. þingmaður, hafi gert rétt með því að benda á þetta í umræðunni og þetta sér reyndar þjóðin öll. (Gripið fram í.) Þessi pistill var hörkupólitískur og nú erum við að ræða hörkupólitík hérna. Það er mjög mikilvægt að við stígum ekki feilspor varðandi útlendingamálin á Íslandi og það sem Frjálslyndir eru að gera í þeirri (Forseti hringir.) orðræðu er mjög alvarlegt að mínu mati.