133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

afnot af Ráðherrabústaðnum.

488. mál
[12:29]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Mörður Árnason er mikill áhugamaður um Ráðherrabústaðinn. Eftir þá kveðjuveislu sem Halldóri Ásgrímssyni var haldið í Ráðherrabústaðnum spurði hv. þingmaður ítrekað, ýmist í fjölmiðlum eða hér, hver hefði borgað brúsann og því var svarað. Það var þingflokkur Framsóknarflokksins. Nú spyr hann um það hverjir hafi haft ráðstöfunarrétt og hefur fengið svar við því. Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra að ekki er óeðlilegt að fyrrum forsætisráðherra og ráðherra til hátt í 30 ára skuli haldið kveðjuhóf.

En mig langar til að spyrja hinn áhugasama þingmann hvort hann telji þetta öðruvísi en þegar fyrrum foringi hans Lúðvík Jósepsson var kvaddur í Ráðherrabústaðnum í ráðherratíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Ég veit ekki betur en hv. þm. Mörður Árnason hafi þá verið aðstoðarmaður eða upplýsingafulltrúi. Og nú spyr ég hann: Hver borgaði þann brúsa þegar fyrrum formaður Alþýðubandalagsins var kvaddur í ráðherratíð, ef þannig má að orði komast, hv. þm. Marðar Árnasonar?