133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

reiknilíkan heilbrigðisstofnana.

163. mál
[14:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom hjá mér áðan þá hefur verið kannað hjá einstaka stofnunum ráðuneytisins hve margir einstaklingar sem eiga lögheimili utan umdæma stöðvanna leita eftir þjónustu þeirra. Þetta hefur því verið kannað hjá einstaka stofnunum. Ég get ekki svarað því skothelt hér hvort þetta sé skráð með algjörlega reglubundnum hætti hjá öllum. Ég þekki það ekki nógu vel til þess að svara því beint hérna. En reiknilíkanið tekur tillit til aukins álags á einstaka heilsugæslustöðvar þar sem frístundabyggðir eru. Það er sem sagt innbyggt í reiknilíkaninu. Það hefur skilað sér sem sagt í hálfri stöðu á Suðurlandi af því að þar er svo stór frístundabyggð. Það er líka mjög stór frístundabyggð, svo ég taki sem dæmi, hérna uppi í Borgarfirðinum.

Varðandi hina fyrirspurnina sem kom hér fram hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um reiknilíkanið sem sýnir að sumar stofnanir hafi fengið of háar fjárveitingar og aðrar hafi fengið of lágar fjárveitingar þá er það þannig að við höfum ekki getað með réttu staðið á neinum grunni í orðræðunni við þessar stofnanir. Sumar hafa sagt að þær fái of lítið. Aðrar hafa sagt að þær fái miklu minna en næsta stofnun í næsta nágrenni o.s.frv. Menn hafa verið að bera sig saman. En með reiknilíkaninu getum við bara með mjög einföldum hætti rætt þetta við stofnanirnar af því að við höfum eitthvað til þess að miða við.

Þær stofnanir sem hafa fengið of há framlög miðað við reiknilíkanið fá aðlögunartíma til þess að draga saman í rekstrinum, aðlaga reksturinn að því sem er eðlilegt. Það eru dæmi um slíkar stofnanir sem þurfa að fara í gegnum það. Það er auðvitað ekkert mjög þægilegt en menn verða að gera það af því að það á að vera hægt að bera saman stofnanirnar og það á að vera eitthvert réttlæti í útdeilingu fjármuna.