133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilsufar erlendra ríkisborgara.

445. mál
[15:18]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við gerum próf á hluta þeirra sem koma hingað til lands og það eru til listar yfir þau lönd sem þar eru tilgreind og hv. þingmaður getur sjálfsagt fengið þann lista, ég hugsa að hann sé á netinu.

Ég vil hins vegar benda á, vegna þessarar umræðu, að við höfum ekki séð neinar hækkaðar tölur í þeim sjúkdómaflokkum sem hér hafa komið til umræðu í tengslum við auknar komur útlendinga til landsins. Það hefur ekkert sýnt sig í raunveruleikanum að við höfum lent í einhverjum áföllum vegna komu útlendinga, alls ekki. Við höfum ekki séð aukna tíðni á neinum sjúkdómum sem tengjast komu þessara aðila.

Ég vil líka benda á að Íslendingar eru mjög duglegir að ferðast til útlanda sjálfir, ferðast til margra landa þar sem alls kyns sjúkdómar geisa. Menn skulu því vara sig á þessari umræðu. Ég tek hins vegar undir það að menn eiga auðvitað að halda vöku sinni og við getum rætt þetta en ég vara við því að þingmenn velti sér upp úr tölum eins og hér var gert, væntanlega með það fyrir augum að reyna að koma einhverjum stimpli á þá útlendinga sem hingað koma, að þeir séu eitthvað hættulegri okkur en aðrir. (Forseti hringir.) Ég vara við þeirri umræðu af því að ég tel að íslenska heilbrigðiskerfið sé það sterkt og í það góðum málum undir forustu Haraldar Briems sóttvarnalæknis að við þurfum ekki að hafa umræðuna á þessum nótum, alls ekki. Við höldum vöku okkar. Við höfum ekki séð neinar hækkaðar tölur í þessum sjúkdómahópum og við skoðum þá sem við teljum að sé ástæða til að skoða. Það þarf því ekki að vera að (Forseti hringir.) ota þessum tölum að fólki til þess að skapa neikvætt andrúmsloft.