133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

fagháskólar.

549. mál
[18:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurrós Þorgrímsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Á Íslandi starfa öflugir rannsóknarháskólar sem er ætlað að vera í senn rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun. Metnaður innan háskólanna er mikill og stefna þeir að því að verða meðal þeirra bestu í heimi. Kennarar hafa ákveðna rannsóknarskyldu jafnhliða kennslu í öllum námsgreinum en fyrst er lagður traustur fræðilegur grunnur áður en námið hneigist að þjálfun til sérhæfðs starfs eða rannsókna. Þessi mikli fræðilegi grunnur er ekki nauðsynlegur í öllu námi á háskólastigi og margir nemendur vilja fyrst og fremst halda áfram menntun í fagnámi að loknu starfsnámi.

Hér á landi væri hægt að bjóða upp á fagnám á háskólastigi að loknu starfs- eða verknámi með því að heimila verkmenntaskólum og fjölbrautaskólum að bjóða upp á sérhæft nám í faggreinasviði sínu að loknu stúdentsprófi, sveinsprófi og öðrum skyldum starfsgreinabrautum að uppfylltu ákveðnu lágmarki, þar sem lögð væri minni áhersla á fræðilegan grunn og rannsóknir en beinist að verkmenntun og þjálfun til starfa. Slíkir skólar mundu sérhæfa sig í þeirri verkmenntun sem fyrir er í skólanum og að því námi sem þörf er fyrir á viðkomandi landsvæði. Fagháskólinn væri þá í sama húsnæði og framhaldsskólinn og nýtti sér húsnæðið og kennslukrafta sem þegar eru fyrir í framhaldsskólunum.

Ef horft er til Finnlands sem þykir í dag standa framarlega á flestum sviðum menntamála stundar um einn þriðji nemenda nám í rannsóknarháskólum og tveir þriðju í fagháskólum eða öðrum háskólum sem bjóða upp á skemmri verkmenntun. Markmið Finna er að auka gæði og virðingu fyrir verk- og fagmenntun og styrkja almenna verkþekkingu. Þannig má hljóta þjálfun til sérhæfðra starfa og tengja nám þörfum atvinnulífsins.

Menntamálaráðherra skipaði sl. vor starfsnámsnefnd sem skilaði skýrslu með ýmsum tillögum um úrbætur í starfsnámi. Þar komu m.a. fram hugmyndir um fagháskóla og í tillögunum er gert ráð fyrir að fagháskólinn verði sjálfstætt skólastig í framhaldi af framhaldsskólunum með áherslu á þarfir atvinnulífsins.

Virðulegi forseti. Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvort fyrirhugað sé að heimila framhaldsskólunum að setja á stofn nám á fagháskólastigi í náinni framtíð.