133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:51]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Niðurstöður 4. skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar eru mjög alvarlegar. Nú er óumdeilanlegt að þær breytingar sem eru að verða á gufuhvolfinu og í sjónum, þ.e. hitun sjávarins, eru af mannavöldum. Það þýðir ekki að bíða og sjá til, við þurfum að bregðast við nú þegar og við eigum að taka undir með öðrum þjóðum, setja fram markvissa áætlun um að draga þegar úr gróðurhúsaútblæstri hér á landi og setja okkur þau markmið, 20%, 30% innan fárra ára. Þetta hafa ábyrgar þjóðir gert. Því miður virðist sem ríkisstjórn Íslands telji nægjanlegt að halda okkur innan við íslenska ákvæðið þó að það sé ljóst að með allri þeirri stóriðju sem á að fara í og hleypa af stokkunum á næstu árum þá munum við sprengja þann kvóta sem við fengum sérstaklega til þess að geta verið með stóriðju á Íslandi. Þetta er alvarlegt mál og við þurfum að horfa á þetta í samhengi og það þýðir ekki að flagga þeirri fögru og góðu ímynd eins og ríkisstjórnin gerir, ég segi undir fölsku flaggi, að hér sé hreint loft, að við séum með stóriðju sem mengar lítið vegna þess að við erum með vistvæna orku, því að við erum með sameiginlegan gufuhjúp, lofthjúp. Við berum sameiginlega ábyrgð og þau fyrirtæki sem hafa verið hér í áliðnaði og ætla sér að byggja upp á Íslandi eru ekki öllsömul með verksmiðjur þar sem raforkuframleiðslan er með kolum. Það eru líka fyrirtæki sem eru með raforkuframleiðslu úr vatnsorku eins og við (Forseti hringir.) og eru bara að færa sig til vegna útsölumarkaðar íslenska ríkisins á raforku til þessarar mengandi stóriðju.