133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

starfstengdir eftirlaunasjóðir.

568. mál
[16:12]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um starfstengda eftirlaunasjóði.

Með frumvarpinu er kveðið á um innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/41/EB, frá 3. júní 2003, um starfsemi og eftirlit með lögaðilum sem sjá um starfstengd eftirlaun. Tilskipunin nær til lögaðila sem heimild hafa til að taka á móti iðgjöldum til myndunar og útgreiðslu eftirlaunaréttinda, starfa á sjóðsmynduðum grunni og eru aðskildir frá þeim fyrirtækjum sem greiða iðgjöld til þeirra. Frá þessu almenna gildissviði eru hins vegar mikilvægar undantekningar sem kveðið er á um í tilskipuninni.

Sú mikilvægasta er að lífeyrissjóðir sem falla undir reglugerð EBE nr. 1408/71 eru undanþegnir tilskipuninni. Íslensku lífeyrissjóðirnir hafa verið skilgreindir á þann hátt að þeir falli undir reglugerð EBE nr. 1408/71 og falla þeir því almennt ekki undir ákvæði tilskipunarinnar. Á það við um skyldubundin framlög til íslensku lífeyrissjóðanna. Taki viðkomandi lífeyrissjóðir hins vegar jafnframt við iðgjöldum sem ekki eru skyldubundin kunna slík framlög að falla undir ákvæði tilskipunarinnar, að því tilskildu að þau séu starfstengd og valkvæð.

Einstaklingsbundinn viðbótarlífeyrissparnaður, samkvæmt II. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, fellur ekki undir tilskipunina þar sem hann er byggður á ákvörðun einstaklings en er ekki starfstengdur í skilningi tilskipunarinnar.

Með frumvarpinu er við innleiðingu tilskipunarinnar, út frá uppbyggingu íslenska lífeyrissjóðakerfisins og reglugerðar EBE nr. 1408/71, því litið svo á að starfstengdir eftirlaunasjóðir í skilningi tilskipunarinnar séu sjálfstæðar einingar og valkostur til hliðar við hina venjubundnu íslensku lífeyrissjóði og lagarammi þeirra afmarkaður út frá því. Fjármálaeftirlitið hefur samkvæmt frumvarpinu eftirlit með starfstengdum eftirlaunasjóðum og meginreglur laga nr. 129/1997 eiga við um slíka sjóði, nema sérstaklega sé kveðið á um annað. Benda má á að sérstakar fjárfestingarreglur gilda fyrir umrædda sjóði sem eru frjálslegri en þær fjárfestingarreglur sem kveðið er á um í almennu lífeyrissjóðalögunum.

Samhliða frumvarpinu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem tekur af öll tvímæli um skattlagningu greiðslna í og úr starfstengdum eftirlaunasjóðum sem og skattlagningu sjóðanna sem slíkra.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.