133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

málefni grunnskólakennara.

[12:02]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er það verkefni sveitarfélaganna að sjá um það, launanefndar sveitarfélaganna. Þess vegna spurði ég hæstv. forsætisráðherra hvort hann sem forsætisráðherra eða einhver á hans vegum í ríkisstjórn Íslands hefði tekið utan um málið, kynnt sér það með formlegum hætti og farið yfir stöðuna með forustu kennara eða forustu launanefndar sveitarfélaganna. Þó svo að ríkisvaldið hafi komið verkefninu fyrir hjá sveitarfélögunum ber ríkisvaldið að sjálfsögðu ábyrgð á grunnskólamenntun barnanna, ber ábyrgð á því að grunnskólastarf sé í lagi og auðvitað á ríkisstjórn Íslands að koma að því að liðka til fyrir hlutunum þannig að ekki stefni í þann ófrið og það óefni sem gæti gerst í grunnskólum landsins.

Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að hafa pólitískan metnað til að koma í veg fyrir það að kennarar segi upp í fjöldauppsögnum og grunnskólar landsins, margir hverjir, verði fyrir barðinu á því og þá skorti kennara m.a. vegna pólitísks viljaleysis hæstv. forsætisráðherra sem skýtur sér hér undan ábyrgð með því að vísa þessu máli alfarið á hendur sveitarfélaganna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi kynnt sér málið með formlegum hætti, hvort til staðar sé pólitískur vilji hjá ríkisstjórn Íslands til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir kennara, til að koma að deilunni, til að liðka fyrir málum þannig að hægt sé að bægja því frá að fjöldi kennara gangi út úr skólunum strax í haust vegna þess að kjör þeirra eru óviðunandi. Það verður að sjálfsögðu að bæta kjör kennara og hefja starf kennara til vegs og virðingar og þar skipta launin miklu máli. Ábyrgð hæstv. forsætisráðherra í því máli er augljós þó svo að það sé launanefndarinnar að semja við kennarana.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra að því aftur hvort hann eða fagráðherra hans hafi komið að því með formlegum hætti.