133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

kostnaður við dagskrárliði Ríkisútvarpsins.

500. mál
[13:24]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt:

„Af hverju neita stjórnendur Ríkisútvarpsins að gefa upp kostnað við mikilvæga og fjárfreka dagskrárliði, svo sem áramótaskaup, sbr. Fréttablaðið 4. janúar, bls. 50?“

Í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns leitaði ráðuneyti menntamála eftir svörum hjá Ríkisútvarpinu. RÚV vísar til þess að viðskiptahagsmunir ráði því að upplýsingar um kostnað við einstaka dagskrárliði séu trúnaðarmál. RÚV telur sér jafnframt ekki skylt að veita slíkar upplýsingar af samkeppnisástæðum.

Þá er einnig bent á að í samningum á milli RÚV og framleiðenda umræddra dagskrárliða er ákveðinn trúnaður um efni samninga, þar með talið um greiðslur. RÚV þarf því að afla samþykkis viðsemjenda áður en trúnaði verður aflétt um efni slíkra samninga. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort viðsemjendur RÚV séu tilbúnir að aflétta trúnaði um efni samninga um framleiðslu sjónvarpsefnis.

Í öðru lagi:

„Hvenær var þessi siður tekinn upp af hálfu Ríkisútvarpsins?“

Viðskiptaupplýsingar af þessu tagi hafa ekki verið gerðar opinberar á síðustu árum samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér frá Ríkisútvarpinu í tilefni af fyrirspurninni.

Í þriðja lagi er spurt:

„Hvað kostaði áramótaskaupið 2006? En 2005? En 2004?“

Það er rétt að undirstrika það að ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um kostnaðinn þar sem Ríkisútvarpið gefur hann ekki upp og vísar til viðskiptahagsmuna og trúnaðar eins og ég gat um áðan í tengslum við fyrstu spurningu hv. þingmanns.