133. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2007.

skattlagning tekna af hugverkum.

547. mál
[13:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Bandalag íslenskra listamanna hefur nokkur undanfarin ár rætt hugmynd um breytingar á skattareglum fyrir listamenn og samþykkti 20. janúar sl. á fundi sínum — ég hygg að það hafi ekki verið í fyrsta sinn en það kann þó að vera — að fara fram á það eða bera það til sigurs og a.m.k. umræðu í samfélaginu að tekjur af hugverkum beri sama skatt og fjármagnstekjur, séu skattlagðar með þeim hætti. Fyrir þessari áhugaverðu tillögu eru færð þau rök að tekjur höfunda hugverka séu tvenns konar, annars vegar þær tekjur sem líkjast helst launum og fram koma sem beint andlag verka þegar þau eru keypt eða seld og hins vegar höfundarréttartekjur sem í raun og veru líkjast mest fjármagnstekjum og komi af þeim verkum sem þegar eru samin og hafi í raun og veru stöðu eignar hjá rétthafanum.

Þessi aðgreining er vissulega ekki alveg einföld en hugmyndasmiðir eða tillögumenn hafa ýmislegt til síns máls og það er áhugavert að ræða þetta í þaula. Þetta mætti auðvitað afmarka einfaldlega í tíma þannig að tekjur af hugverkum fyrstu, segjum, fimm árin séu flokkaðar sem laun en eftir það sem eignartekjur, tekjur af eigninni, sambærilegar við fjármagnstekjur og að sjálfsögðu þá alltaf þegar um er að ræða látinn höfund og aðra rétthafa en hann sjálfan.

Þetta mundi skipta miklu fyrir aðstæður hinna skapandi stétta eða þeirra sem við hljótum að hefja í hásæti a.m.k. þess hugtaks og mundi skipta miklu um menningar- og sköpunarstarf í samfélaginu. Ég kannast við það að auðvitað getur þetta valdið skatttæknilegum vanda en slíkur vandi má ekki verða til þess að loka af og hindra umræðu um góðar hugmyndir. Fyrst kemur meiningin og svo kemur skatturinn í þessu efni. Ég hlakka til að heyra hæstv. menntamálaráðherra svara fyrirspurninni og geri ráð fyrir að hún geri það jákvæðar en fjármálaráðherra og þeir sem hafa svarað (Forseti hringir.) erindi Bandalags íslenskra listamanna árið 2000 og í ársbyrjun 2007.