133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

ummæli þingmanns um útlendinga.

[10:44]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Ég dáist að frjálslyndi Frjálslynda flokksins sem nær til allra sviða. Nú er nýjasta dæmið frjálslyndi í orðanotkun og er í sjálfu sér vel. Það er merkilegt að heyra hvernig hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson túlkar orðið „hryðjuverk“, ekki síst í því samhengi sem það var notað af því tilefni sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson tók það hér upp. Það var nefnilega verið að tala um hryðjuverkamenn sem er mjög alvarlegt. Það var mjög alvarleg ásökun og mjög alvarlegar staðreyndir sem hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson hélt fram um að þekktir hryðjuverkamenn hefðu verið handteknir, þeir væru komnir til Íslands og gaf í skyn að það væri með vilja stjórnarþingmanna að svo væri. Þetta er auðvitað mjög alvarlegt. Það var ekki verið að ræða um fíkniefni í þessu samhengi, ekki á nokkurn hátt.

Um það er enginn ágreiningur að þingheimur allur fordæmir fíkniefnainnflutning og fíkniefnanotkun þannig að þetta eru útúrsnúningar hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni hvernig hann fjallar eiginlega af galgopahætti um fíkniefni. Það er mjög alvarlegt að halda því fram að hingað séu komnir þekktir hryðjuverkamenn. Það kann vel að vera að þeir hafi fundist í greiningardeild Frjálslynda flokksins en hin löggiltu yfirvöld, sýslumaður og lögreglustjóri, kannast ekki við það. Þess vegna eiga hv. þingmenn Frjálslynda flokksins að draga þessi alvarlegu orð sín til baka og halda sig við málefni.