133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:19]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins áður en umræða hefst um þessar tvær mikilvægu þingsályktunartillögur sem hér eru á dagskrá í dag spyrjast fyrir um eitt praktískt atriði sem getið er um í 63. gr. þingskapa, þ.e. að það sé leyfilegt ef flutningsmenn óska eftir að ræða saman svona tillögur eins og hér liggja fyrir sem eru keimlíkar og blandast alltaf saman. Hefur ekki ósk komið fram frá hæstv. samgönguráðherra um að þessar tvær þingsályktunartillögur verði ræddar saman að þessu sinni eins og gert hefur verið hingað til?

Virðulegi forseti. Ég tek líka eftir því að í umræddri grein er talað um að ef enginn þingmaður andmæli þessu geti forseti orðið við þessari ósk. Það getur ekki nema annaðhvort hafa gerst, að hæstv. samgönguráðherra hafi ekki óskað eftir að ræða þær saman eða að einhver þingmaður hafi andmælt því að þær yrðu ræddar saman. Ef svo er langar mig að vita hvaða þingmaður andmælti þessu.