133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[11:38]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (U) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er upplýst að athugasemdin hafi borist til forseta utan þingfundar og forseti tekur það gilt. Ég ætla ekki að gera neinn ágreining við forseta um það að hann samþykki að einstakir þingmenn geti komið athugasemdum sínum á framfæri við forseta símleiðis eða með öðrum hætti utan þingfunda. Ég geri ráð fyrir að forseti hafi gengið úr skugga um að sú aðferð samrýmist þingsköpum en mér finnst engu að síður að það verði að gera grein fyrir því í þingsalnum hver geri athugasemdina. Það er ekki boðlegt gagnvart okkur, hinum þingmönnunum, að einhver tillaga eða áform nái ekki fram að ganga vegna andmæla frá aðila sem haldið er leyndum fyrir þingheimi. Ég held að hæstv. forseti hljóti að skilja að þessi sjónarmið mín eru eðlileg. Það kom fram hjá forseta snemma í þessari umræðu að andmæli hefðu verið viðhöfð en forseti upplýsti ekki um hver hefði haft þau uppi og hefur ekki orðið við óskum um að upplýsa hver gerði athugasemd. Því vil ég halda til streitu, virðulegi forseti, og óska eftir því að forseti upplýsi úr ræðustól hver gerði athugasemd í þessu tilviki.

Ég sé ekki hvers vegna eigi að halda því leyndu fyrir þingmönnum. Er það vegna þess að það er til skaða fyrir þingmanninn sem gerir athugasemdina sem forseti heldur því leyndu? Ef svo er, er þá réttmætt að taka athugasemdina til greina? Er ekki rétt að ætlast til þess af þeim sem gerir athugasemd að hann standi við það og komi fram í dagsljósið sjálfur eða þá að forseti upplýsi það ef viðkomandi þingmaður kýs að gera það eftir öðrum leiðum en að vera í þingsalnum sjálfum? Ég fæ ekki séð að það þjóni hagsmunum þingsins að hlífa þingmanni við því (Gripið fram í.) að gera í heyranda hljóði upplýst að hann hafi gert athugasemd.

Ég spyr hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur: Hvaða annmarkar eru á því, ef satt er, að það sé upplýst að hv. þm. Halldór Blöndal hafi gert athugasemdina? (Gripið fram í.) Hvaða annmarkar eru á því? Ég sé ekki neina annmarka á því. Þess vegna get ég ekki fallist á að því sé haldið leyndu, virðulegi forseti.