133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[12:14]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að þegar farið er tvö ár aftur í tímann í andsvar sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson átti við hæstv. samgönguráðherra, Sturlu Böðvarsson, en hv. þingmaður spurði hvort það væri skynsamlegt að hægja á framkvæmdum í samgöngumannvirkjum, þá svaraði núverandi hæstv. samgönguráðherra því að það væri eðlilegt að ríkisstjórnin hefði tekið tillit til uppbyggingar orkufreks iðnaðar og annars slíks, og því þyrfti með tilliti til efnahagslífsins að skera niður framkvæmdir. Sem ríkisstjórnin gerði svo eftirminnilega.

Þess vegna er spurt: Verður einhver munur á þeim orkufreka iðnaði sem ríkisstjórnin hyggst fara fram í núna, með Straumsvík eða Helguvík, ef af verður, með tilliti til efnda á þessari samgönguáætlun? Hver er munurinn á því sem hæstv. samgönguráðherra sagði fyrir tveimur árum og á því sem hæstv. samgönguráðherra segir núna um stóriðjuframkvæmdir og efndir samgönguáætlunar? Þá taldi hann eðlilegt að skera niður samgönguframkvæmdir vegna framkvæmda í stóriðju í svari við andsvari við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson. Hvað hefur breyst?