133. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2018.

575. mál
[14:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007–2018. Hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir þessari áætlun og rakið helstu þætti hennar. Ég vil í upphafi máls míns gagnrýna þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við gerð hennar. Ef taka á slíka samgönguáætlun alvarlega ber að mínu viti að hafa miklu nánara samráð við þingið í forvinnunni. Það væri mun eðlilegra að m.a. fulltrúar allra þingflokka kæmu að undirbúningsvinnu hennar ef eitthvert mark á að vera takandi á henni. Samgöngumálin snerta grunnþætti alls samfélags okkar og eru því ekkert einkamál tímabundinnar ríkisstjórnar eða þeirra flokka sem að henni standa eins og þeir virðast upplifa. Þeir þykjast nokkuð góðir ef þeim tekst að hnoða áætluninni í gegnum eigin þingflokka og þá sé málið búið. Þetta eru ósæmileg vinnubrögð í svo alvarlegu og mikilvægu máli eins og hér er um að ræða og ég tel að þeim vinnubrögðum eigi að breyta.

Ég sagði í andsvari við hæstv. ráðherra í morgun þegar hann gumaði af áætluninni og öllu því sem átti að gera, sérstaklega eftir 2012 minnir mig, en þá var hann sérstaklega stórtækur í því sem átti að gera, að hann væri brandarakarl. Enda er ágætt að ráðherra sé með húmor og geri jafnvel grín að sjálfum sér, eins og hæstv. ráðherra gerði þegar hann mælti fyrir þessari áætlun.

Það er gríðarlega mikið sem á að gera á næstu árum, sérstaklega eftir 2012 eins og ég segi. Hæstv. núverandi samgönguráðherra er búinn að sitja í ráðuneytinu í átta ár. Þar áður var annar samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ég held að ekki fari hjá því, hversu mjög sem hæstv. samgönguráðherra vill gleyma þeim árum sem hann hefur setið og hve mjög sem hann fyrirverður sig fyrir það sem ekki hefur verið staðið við á undanförnum árum, að það verði að skoða trúverðugleika þessarar ríkisstjórnar og ráðherra í því ljósi.

Fyrir síðustu kosningar, árið 2003, var líka lögð fram gríðarlega metnaðarfull samgönguáætlun, vegáætlun, og þá átti að gera mikla og stóra hluti. Menn vita að auðveldast er að komast að tilfinningum fólks, væntingum þess, í gegnum samgöngumálin, sérstaklega úti um land. Þess vegna urðu það gríðarleg vonbrigði þegar vegáætlun var skorin niður strax á fyrsta ári núverandi ríkisstjórnar eftir síðustu alþingiskosningar. Ég fer ekki út í það að tala um tímabilið áður sem var litlu skárra. Síðan hefur vegáætlunin sem kynnt var íbúum landsins í aðdraganda kosninga fyrir tæpum fjórum árum verið skorin niður á hverju ári. Niðurskurður á þessu fjögurra ára tímabili hefur numið 6–7 milljörðum króna, og ekki bara sá niðurskurður heldur einnig þeir fjármunir sem lofað var sérstaklega til vegaframkvæmda við sölu Símans. Fyrir íbúa landsins var sala Símans mjög sársaukafull aðgerð. Ég minnist þess að í skoðanakönnunum sem gerðar voru ítrekað var yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar andvígur sölunni. Það átti að reyna að lina sársaukann með því að bjóða eitt hér og annað þar. Eitt af því sem boðið var voru vegaframkvæmdir, verja átti ákveðinni upphæð af söluandvirðinu til vegaframkvæmda. Á hverju var svo byrjað? Jú, þegar þessi ákvörðun átti að koma til framkvæmda, ráðstöfun á fjármagni af sölu Símans til vegamála árið 2007, var byrjað á að skera niður. Hvar er skorið niður? Það var einmitt skorið niður fjármagn til þeirra landshluta þar sem vitað var að mest andstaða væri við sölu Símans og þar sem vitað var að einkavæðing og sala Símans mundi koma harðast niður. Raunin er sú að einkavæðing á almannaþjónustu kemur harðast niður á landsbyggðinni, langharðast. Við fjárlagaafgreiðslu í fyrrahaust var ákveðið að skera niður framlög til vegaframkvæmda sem bundin höfðu verið sölu Símans, m.a. á Norðausturlandi og Vestfjörðum.

Afrekaskrá hæstv. ráðherra hvað það varðar að standa við miklar yfirlýsingar í vegamálum er því miður ekki góð. Ofan í þetta allt saman, niðurskurðinn á undanförnum árum, var þessum sömu landshlutum, Vestfjörðum og Norðausturlandi, tilkynnt að vegaframkvæmdum á þessu ári yrði frestað þar vegna þenslu í samfélaginu, þenslu sem átti sér allt aðrar rætur en framkvæmdir í vegamálum. Þar standa nú þegar vegaframkvæmdir hvað verst hvað varðar þjónustumöguleika og alla umferð. Svo kemur ráðherra og kynnir nýja vegáætlun, ber sér á brjóst og segir: Nú ætla ég að fara að gera alla stóru hlutina sem ég hef vanrækt undanfarin ár. Batnandi mönnum er sannarlega best að lifa og ekki skal ég harma það ef ráðherra fer að standa betur við orð sín en reyndin hefur verið á unfanförnum árum. Það er samt miklu betra að verkin tali, en verkin hafa talað í framkvæmd samgönguáætlunar á undanförnum árum þar sem ekki hefur verið staðið við hlutina og í sjálfu sér er lítil von til þess að það breytist.

Ég vildi bara í upphafi leggja það til við ráðherrann að nota lágstemmdari orð þó að ég dragi ekki í efa áhuga hans persónulega á því að reyna að efla vegaframkvæmdir.

Hinn þátturinn sem hér er svo dreginn til er einkavæðing í vegaframkvæmdum. Skilin eru eftir heilu stórverkefnin sem ekkert er sagt um annað en að fjármögnun þeirra og framkvæmd verði háð annarri fjármögnun en hinni hefðbundnu í gegnum ríkissjóð eða tekjustofna Vegagerðarinnar. Þessar stórframkvæmdir eru bara látnar vera upp í loft og sagt að þær eigi að fara í einkaframkvæmd. Í vinnuskýrslu sem ég vísaði til áðan sem hæstv. samgönguráðherra lét Ríkisendurskoðun vinna um Hvalfjarðargöngin og Sundabrautina, um mat á kostum og göllum einkaframkvæmdar, er einmitt varað við því að taka fljótfærnislegar ákvarðanir um einkaframkvæmdir, ríkið sé miklu sterkari aðili til að fara í samgönguframkvæmdir, ríkið eigi möguleika á lánsfé á hagkvæmari kjörum en einkaaðilar, Vegagerðin búi yfir þeirri þekkingu sem þarf við vegagerð og áætlanir í þeim efnum o.s.frv. Fyrir utan þá grunnhugsun að vegirnir eru einn af grunnalmannaþáttum samfélagsins, ein af þeim grunnstoðum samfélagsins sem á ekki að einkavæða. Við höfum fengið smjörþefinn af einkavæðingaráráttu samgönguráðherra, einkavæðingu á flugvöllunum og flugleiðsögn í landinu þar sem vaðið var út í að einkavæða flugleiðsögnina og flugvellina í landinu fyrir síðustu áramót. Ég held að þjóðin hafi engan áhuga á frekari einkaframkvæmdum eða einkavæðingu á þessum grunnþáttum íslensks samfélags.

Það er ósköp rýrt sem minnst er á hér varðandi ýmsa aðra þætti, t.d. strandsiglingar. Möguleikar á strandsiglingum eru ekki inni hér og mér þykir það skjóta nokkuð skökku við. Ég veit ekki annað en að Alþingi hafi einmitt lagt til að þeir þættir yrðu skoðaðir vandlega. Við fengum afhent bréf frá fulltrúum sveitarfélaga á Vestfjörðum á fundi með þeim í gær þar sem þeir lögðu þunga áherslu á að teknar yrðu upp strandsiglingar og að ríkið veitti þann stuðning sem þyrfti til að koma þeim af stað. Í þessari samgönguáætlun er algjörlega vikist undan umfjöllun um þetta. Varla er minnst á almenningssamgöngur nema í einni og hálfri línu, eða áætlunarferðir vítt og breitt um landið, það er ekki minnst mikið á þær. Ekki heldur flutningskostnaðinn sem hefði þó verið ástæða fyrir hæstv. ráðherra að koma inn á en sá kostnaður skiptir miklu máli. Ráðherra minntist á tímann sem það tæki að komast á milli staða og til næsta þéttbýlis, að sett skyldu mörk á hann. Gott og vel með það.

Ráðherra lét líka vinna fyrir 3–4 árum, minnir mig, skýrslu um flutningskostnað í landinu sem sýndi að hann hafði stórlega vaxið. Fyrir síðustu alþingiskosningar, 2003, man ég eftir mjög hástemmdum loforðum, sérstaklega frá Framsóknarflokknum, um jöfnun flutningskostnaðar. Það varð kosningamál. Það komu yfirlýsingar um að málið hefði verið tekið fyrir í ríkisstjórn, unnið væri að afgreiðslu þess en það sæti eitthvað fast í fjármálaráðuneytinu. Ekki veit ég til þess að fjármálaráðuneytið sé neitt sjálfstæður aðili í ríkisstjórn, heldur bara hluti af heildinni. Flutningskostnaður er að sliga samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu vítt og breitt um landið. Mér finnst þess vegna hæstv. ráðherra skauta nokkuð létt yfir með því að minnast ekki einu orði á þann þátt, hvernig eigi að ná honum niður, jafna hann o.s.frv.

Fleira má minnast á. Ég fékk t.d. bréf rétt áðan — af því að við vorum að tala um Vestfirði og Strandir, og Vestfirðir voru fyrsti landshlutinn þar sem skorið var niður þegar slá þurfti á þenslu í þjóðfélaginu hvað vegaframkvæmdir snertir — frá hreppsnefnd Kaldrananeshrepps þar sem bent er á að ekki sé gert ráð fyrir að bundnu slitlagi verði komið á veginn milli Drangsness og Hólmavíkur fyrr en 2011 eða 2014. Ég hef ekki náð að kanna þetta en ég hygg að nefndin hafi gert það. Ef satt er gengur það þvert á gefin loforð og yfirlýsingar um að kappkosta ætti að leggja góða vegi með bundnu slitlagi milli aðliggjandi þéttbýlisstaða, aðliggjandi byggðarlaga. Ég minnist þess að hafa heyrt þau orð frá hæstv. ráðherra fyrir nokkrum missirum. Svona gæti hagur hinna dreifbýlli svæða sjálfsagt víðar verið fyrir borð borinn í þessari áætlun.

Herra forseti. Þetta er heldur stuttur tími sem maður hefur til að fjalla um eins stórt mál og samgönguáætlun til svo langs tíma, en ég drap hér á nokkur atriði og nokkur grundvallaratriði (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin virðist hafa að leiðarljósi í aðdraganda næstu kosninga.